Íslendingar bjarga mannslífum á Miðjarðarhafi

AFP

Á aðeins  nokkrum dögum var hundruðum flóttamanna bjargað um borð í tvö skip sem eru á Miðjarðarhafi við eftirlit á sjóleiðinni milli Lýbíu og Ítalíu. Rauði krossinn tekur þátt í björgunarstarfinu en íslenskur hjúkrunarfræðingur fer fljótlega til starfa um borð í öðru þeirra.

Flóttafólk sem var bjargað með stuðningi Rauða krossins á Miðjarðarhafi.
Flóttafólk sem var bjargað með stuðningi Rauða krossins á Miðjarðarhafi. AFP

Á hverjum degi leggja hundruð flóttamanna yfir Miðjarðarhafið í leit að betra lífi fyrir sig og börnin sín. Nú þegar hafa um þrjú þúsund flóttamenn drukknað á þessu ári á leið sinni til Ítalíu frá Norður-Afríku. Neyðarkall ítalska Rauða krossins og Alþjóðasambands landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans barst til Rauða krossins á Íslandi fyrr í sumar vegna mikillar umferðar flóttafólks sem freistar þess nú í auknum mæli að komast sjóleiðina frá Norður-Afríku til Ítalíu eftir að landamærum Makedóníu var lokað.

Flóttafólkið fær fyrstu hjálp um borð í skipum Rauða krossins.
Flóttafólkið fær fyrstu hjálp um borð í skipum Rauða krossins. AFP

Rauði krossinn hér á landi hefur leitað til almennings um að veita verkefninu lið og segir Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, að Íslendingar hafi brugðist vel við enda þekkjum við þær hættur sem fylgja hafinu.

Búið er að tryggja rekstur skipanna að miklu leyti þangað til í júní á næsta ári en enn vantar herslumuninn. Annað skipið hefur verið að fylgjast með för flóttafólks í allt sumar á þessari hættulegu siglingarleið en hitt bættist við 9. ágúst.

Flóttafólk sem var bjargað fyrr í mánuðinum á sjóleiðinni frá …
Flóttafólk sem var bjargað fyrr í mánuðinum á sjóleiðinni frá Lýbíu til Ítalíu. AFP

Stór hluti þeirra sem er bjargað um borð eru börn sem eru að flýja hörmungar í heimalandinu. Rauði krossinn leggur til hjálparstarfsmenn um borð í skipunum og meðal annars fer hjúkrunarfræðingur héðan fljótlega og tekur þátt í hjálparstarfi um borð í fjórar vikur. Síðar fara væntanlega fleiri íslenskir heilbrigðisstarfsmenn þangað.

Að sögn Kristínar hefur Rauði krossinn þegar sent fjármagn út en betur má ef duga skal og því er leitað til almennings um að styðja verkefnið björgun úr hafi.

Hún segir aðstæður oft mjög erfiðar á þessari siglingaleið, stórsjór og mikið brim, en bátar flóttafólks eru oft vanbúnir fyrir slíkar aðstæður.

Hér er hægt að taka þátt og lesa meira um verkefnið

Frá björgunarleiðangri á Miðjarðarhafi.
Frá björgunarleiðangri á Miðjarðarhafi. AFP


Það sem af er ári hafa yfir 94 þúsund flóttamenn komið til Ítalíu og eru björgunarskipin ein þeirra leiða sem Rauði krossinn fer til þess að koma í veg fyrir frekari hamfarir þar sem mannslíf eru í húfi. Fastlega er gert ráð fyrir að skipið Responder, sem fór af stað 9. ágúst, komi til með að veita 1.100 manns aðstoð í hverjum mánuði. Sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum og áhöfn skipsins munu veita flóttafólkinu fyrstu hjálp, svo sem læknisaðstoð, mat, fatnað, teppi og hreinlætisvörur. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert