Airbnb „keyrir stíft inn á Ísland“

Á Airbnb geta einstaklingar auglýst íbúðir sínar til tímabundinnar leigu.
Á Airbnb geta einstaklingar auglýst íbúðir sínar til tímabundinnar leigu. AFP

Umframspurn eftir gistingu á Íslandi virðist hafa orðið Airbnb hvati að því að hefja auglýsingaherferð á Google. Könnun sem ferðamálafræðingurinn Hermann Valsson gerði sýnir að auglýsingar Airbnb birtast nú í fyrsta skipti í leitarniðurstöðum í sumum þeirra landa þaðan sem flestir ferðamenn koma til Íslands.

Hermann hefur fylgst með auglýsingum fyrir gistingu á Íslandi á Google undanfarin sex ár en niðurstöðurnar í fyrra nýtti hann í BS-ritgerð sína í ferðamálafræði. Athugun hans í ár leiðir í ljós að Airbnb er í fyrsta skipti byrjað að kaupa auglýsingar á Google þegar leitað er að gistingu á Íslandi.

„Það hefur orðið svo ofboðsleg aukning í Airbnb-gistingum vegna þess að fjöldi erlendra ferðamanna til Íslands hefur farið langt fram úr framboði á gistingu. Þeir eru að keyra inn á þennan markað mjög stíft,“ segir Hermann.

Auglýsa ekki í vinsælustu ferðamannalöndunum

Könnunin fór þannig fram að Hermann leitaði að gistingu í höfuðborginni með leitarorðunum „Hotel Reykjavik“ í Google eins og hann væri staddur í þeim tíu löndum þaðan sem flestir ferðamenn koma til Íslands.

Frétt mbl.is: Hótel missa tekjur til erlendra aðila

Í ljós kom að í Danmörku og Hollandi birtist auglýsing frá Airbnb á fyrstu síðu niðurstaðna við hlið gamalgróinna gistingarmiðlara eins og Booking.com og fleiri sambærilegra síðna. Danir eru í sjötta sæti og Hollendingar í tíunda sæti þeirra þjóða sem sækja Ísland helst heim.

Hermann segist jafnframt hafa skoðað sambærilegar niðurstöður fyrir þau tíu lönd sem taka við flestum ferðamönnum í heiminum en í engu þeirra standi Airbnb í sambærilegri auglýsingaherferð á Google.

Flestar Airbnb-íbúðirnar eru í miðborginni.
Flestar Airbnb-íbúðirnar eru í miðborginni. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er bara til Íslands sem þeir eru núna að ráðast inn alveg af fullum þunga til að taka sem mest af þessari köku,“ segir hann og bendir á að greiða þurfi hátt verð fyrir auglýsingar á fyrstu niðurstöðusíðu hjá Google .

Þá bendir hann á að ekki sé rétt að meta mikilvægi þjóðernis þeirra ferðamanna sem hingað koma út frá mannfjölda heldur fremur út frá gistinóttum. Þannig dvelji Hollendingar til að mynda í þrettán daga á Íslandi að meðaltali en Bandaríkjamenn, Bretar og Norðmenn ekki nema fjóra til fimm daga að jafnaði.

Skaðleg samfélagsleg áhrif

Hugsanlegt sé að Airbnb sé að nota Ísland, sem sé þrátt fyrir allt frekar lítill markaður í ferðamennsku, sem nokkurs konar tilraunamarkað í þessu samhengi til að læra af áður en sama herferð verður notuð annars staðar, að mati Hermanns. Það sé þekkt aðferð innan sölu- og markaðsfræðanna.

Hermann telur að innreið Airbnb á Íslandi hafi neikvæð samfélagsleg áhrif því hún stuðli að snarhækkun leigu- og fasteignaverðs.

„Örðugleikar ungs fólks að leigja og kaupa aukast til muna því þarna er verið að færa gistingu sem annars var á hótelum meira í heimahús. Afleiðingarnar eru stórkostlegar,“ segir Hermann.

Úttekt sem ráðgjafafyrirtækið Expectus gerði í vor sýndi að pláss er fyrir um 10.000 Airbnb-gesti í Reykjavík og að flestar íbúðirnar sem leigðar eru út með þeim hætti séu í miðborginni.

Airbnb-íbúðir í Reykjavík voru alls 2.551 talsins í Reykjavík í …
Airbnb-íbúðir í Reykjavík voru alls 2.551 talsins í Reykjavík í apríl sl. Skjáskot

Frétt mbl.is: Pláss fyrir 10.000 Airbnb-gesti

Uppfært 1.9.2016 Upphaflega stóð í fréttinni að Danir og Hollendingar væru í þriðja og sjötta sæti yfir þjóðir sem heimsækja helst Ísland. Hið rétta er að þjóðirnar tvær eru í sjötta og tíunda sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert