Uppboð fyrir Ágústu Örnu

Ágústa Arna Sigurdórsdóttir slasaðist alvarlega þegar hún féll niður rúma …
Ágústa Arna Sigurdórsdóttir slasaðist alvarlega þegar hún féll niður rúma sex metra.

Uppboð hófst í dag fyrir Ágústu Örnu Sigurdórsdóttur sem lamaðist fyrir neðan brjóst í slysi á Selfossi í síðasta mánuði. Styrktarkvöld fyrir hana verður einnig haldið á Hótel Selfossi 6. október, auk þess sem söfnunarreikningur var opnaður skömmu eftir slysið.

Frétt mbl.is: Styrktarsöfnun fyrir Ágústu Örnu 

Að sögn Vignis Egils Vigfússonar, ættingja Ágústu Örnu, mun uppboðið standa yfir næstu þrjár vikurnar, eða fram að styrktarkvöldinu. Þar verður tilkynnt um hverjir voru hæstbjóðendur. 

Um tíu vinir og ættingjar Ágústu standa á bak við uppboðið og styrktarkvöldið. „Það er nóg að þurfa að koma sér af stað andlega og líkamlega eftir svona en fjárhagslega getum við hjálpað. Það er hugmyndin á bak við þetta,“ segir Vignir Egill.

Á meðal þess sem hægt er að kaupa í uppboðinu er árituð landsliðstreyja frá knattspyrnumanninum Jóni Daða Böðvarssyni sem hann klæddist í leik gegn Úkraínu, árituð treyja sem Viðar Örn Kjartansson mun nota í leik sínum með ísraelska liðinu Maccabi Tel Aviv í kvöld og árituð treyja frá landsliðsmanninum í handbolta, Aroni Pálmarssyni. Einnig er hægt að bjóða í málverk og ferðir.

Hægt að taka þátt í uppboðinu með því að senda póst á styrktarkvold@gmail.com.

Hér er Facebook-síða uppboðsins.

Taka hverri krónu fagnandi 

Vignir Egill segir að ekki hafi verið stefnt á eina söfnunarupphæð. „Við tökum fagnandi hverri krónu. Þetta er svipaður hópur og er á bak við söfnunarreikninginn sem fór af stað mjög fljótlega eftir slysið. Við erum að reyna að gera allt til að létta henni lífið hvað þetta varðar. Læknar og starfsfólk heilbrigðisstofnana hjálpa með hitt.“

Hann segist hafa fengið góð viðbrögð frá fólki og fyrirtækjum sem vilja taka þátt í uppboðinu og söfnuninni. „Þetta er búið að vera alveg frábært. Maður hefur stundum verið alveg orðlaus þegar maður finnur fyrir velvildinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert