„Heimatilbúinn frágangur“

Slysið átti sér stað á Selfossi á mánudagskvöld.
Slysið átti sér stað á Selfossi á mánudagskvöld. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Gögn sem Vinnueftirlitið hefur undir höndum varðandi slys á Selfossi á mánudagskvöld, þar sem þrítug kona féll 6,3 metra niður um op á palli við neyðarútgang, benda til þess að frágangur flóttaleiðarinnar sé ófullnægjandi.

Eftirlitið mun því taka atvikið til skoðunar.

Frétt mbl.is: Lömuð eftir slys á Selfossi

Konan liggur alvarlega slösuð á Landspítalanum en hún höfuðkúpubrotnaði, kinnbeinsbrotnaði og hryggbrotnaði við fallið. Samkvæmt frétt RÚV er hún talin lömuð frá hálsi.

„Þetta virðist vera heimatilbúinn frágangur á þessum palli,“ sagði Sigurður Sigurðsson, svæðisstjóri Vinnueftirlitsins, í samtali við mbl.is í dag. Hann segir það eitt og sér ekki fela í sér brot, ekki ef frágangurinn uppfyllir staðla, en það virðist ekki eiga við í þessu tilviki.

Að sögn Sigurðar blasir m.a. við að vegna hæðarinnar af pallinum og niður á jörðina ætti að vera búr utan um stigann til að varna því að fólk falli alla leið niður ef því skrikar fótur. Svo sé ekki. Þá sé ljóst að pallar á borð við þann sem um ræðir séu alls ekki ætlaðir sem svalir.

Samkvæmt heimildum mbl.is starfar konan sem verktaki hjá Sunnlenska fréttablaðinu, sem er til húsa þar sem slysið átti sér stað.

Sigurður segir ábyrgð vinnuveitenda mikla enda eigi þeir að skaffa starfsfólki sínu öruggt starfsumhverfi.

Það var fyrst í dag sem Vinnueftirlitið var upplýst um slysið en Sigurður segir það geta átt sér eðlilegar skýringar. Eftirlitið fái sjálfkrafa boð þegar hringt er á sjúkrabíl vegna vinnuslysa en mögulegt sé að umrætt slys hafi verið flokkað öðruvísi til að byrja með.

Uppfært kl. 16.22:

Að sögn Sigmundar G. Sigurgeirssonar, ritstjóra Sunnlenska, er konan ekki verktaki hjá fyrirtækinu. Hið rétta er að hún skrifar pistla fyrir miðilinn en er ekki í launuðu starfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert