„Þetta gengur ekkert upp“

Síaukin áhugi er á að koma fleiri og fleiri verkefnum …
Síaukin áhugi er á að koma fleiri og fleiri verkefnum inn í skólana án þess að gert sé ráð fyrir tíma til að sinna þeim, að sögn Ólafs Loftssonar formanns Félags grunnskólakennara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil áhersla hefur verið lögð á launaliðinn í kjaraviðræðum samninganefndar Félags grunnskólakennara og Sambands sveitarfélaga, sem samninganefnd grunnskólakennara vísaði í gærkvöldi til ríkissáttasemjara. Starfsaðstæður og síaukið álag brenna þó ekki síður á kennurum, að sögn Ólafs Loftssonar, formanns Félags grunnskólakennara.

Ólafur segist skynja að fólki sé alvara með að hætta í kennslunni, en fjölmiðar hafa undanfarið sagt fréttir af kennurum sem sagt hafa upp og hugmyndum kennara um hópuppsagnir. „Fólki líður bara þannig að þetta gengur ekkert upp.“

Kennslan og undirbúningurinn afgangsstærð

Ólafur segir laun og starfsaðstæður hvoru tveggja mjög mikilvæga þætti í kjaraviðræðum grunnskólakennara, enda fari sá hluti af vinnutíma kennara sem ætlaður sé til kennslu og undirbúnings hennar sífellt minnkandi. „Á pappírnum er þetta sami tíminn, en verkefnin og verkefnamagnið hafa gjörbreyst.“

Mikil breyting hafi orðið á samsetningu nemendahópsins og inn í skólann komi nú fjöldi verkefna utan frá, sem m.a. tengist í raun félags- og heilbrigðismálum. „Verkefnin eru gjörbreytt en kennslan er sú sama og það er þar sem álagið er að verða. Því við eigum að sinna þessu öllu og þá eru það kennslan og undirbúningurinn sem láta undan.“  

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir flesta kennara telja kennslu …
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir flesta kennara telja kennslu gefandi starf sem þeir standi einfaldlega ekki lengur undir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ólafur segir kennara hins vegar með samviskusamasta fólki sem hann þekki. „Þannig að þeir eru ekkert að fara í kennsluna óundirbúnir. Þarna er álagið að aukast og við höfum lengi bent sveitarfélögunum á að þetta þurfi að skoða samhliða launaliðinum.“

Deilt um viðverukröfu sveitarfélaga

Ólafur segir Samband sveitarfélaga ekki endilega ósammála um að álagið á grunnskólakennara hafi breyst og kröfunum fjölgað. „Ágreiningurinn er frekar um það hvernig bregðast eigi við því,“ segir hann og nefnir viðverukröfu sveitarfélaga sem dæmi. 

Sú breyting sem gerð var 2014, þegar stjórnendum grunnskóla var veitt tækifæri til að útfæra í samráði við kennara hvernig þeir vildu hafa endanlega samsetningu á vinnutíma kennaranna, hefur ekki skilað tilætluðum árangri. „Við erum að upplifa að þetta er ekki að heppnast. Því það hefur ekkert breyst varðandi það að kennslan og undirbúningurinn halda áfram að vera afgangsstærð, á sama tíma og verkefnunum er alltaf að fjölga og þetta er nokkuð sem verður að vinda ofan af.“

Síaukin áhugi er á að koma fleiri og fleiri verkefnum inn í skólana og sem dæmi má nefna rafræn próf og fjölda þróunarverkefna. „Þetta eru kannski allt áhugaverð verkefni, en ef þau eiga að fara inn í skólana, þá þarf að búa til tíma svo það sé hægt að sinna þeim sómasamlega,“ segir hann sem dæmi um þau viðbótarverkefni sem hlaðist inn hjá kennurum.

Kennslan gefandi starf en kennarar fara samt annað

„Ástandið núna er þannig að fólk upplifir það bara mjög sterkt að það sé ekki að fara að vinna þessa vinnu miðað við þessar aðstæður,“ segir Ólafur og kveðst hafa bent á að þetta sé mögulega ein ástæða þess að fólk fæst ekki í kennaranám.

„Það munu flestir kennarar segja þér að kennsla sé gefandi starf sem þeir hafi ánægju af að sinna, en samt fara þeir annað, af því að fólkið okkar stendur bara ekki undir þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert