Fimm flokka stjórn raunhæf

Katrín ásamt Óttarri og Benedikt við upphaf fundarins.
Katrín ásamt Óttarri og Benedikt við upphaf fundarins. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var mjög góður fundur. Við ræddum bæði stöðuna eftir kosningar og stöðuna eftir að upp úr slitnaði með Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, eftir að hafa ásamt formanni Viðreisnar fundað með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, í Alþingishúsinu.

„Við vorum að fara yfir málefnin og áherslurnar. Þetta var góður fundur en það var ekkert ákveðið með framhaldið.“

Spurður hvar hafi mest borið í milli sagði Óttarr ekki vera tímabært að fara yfir þau mál.  „Eins og kom fram í kosningabaráttunni eru misjafnar áherslur í sumum málum. Það á eftir að koma í ljós hvernig það verður. Það er líka ljóst að Katrín á eftir að tala við fleiri flokka. Það væru líkur til þess ef eitthvað yrði úr að það væru fleiri flokkar við borðið, þannig að það á eftir að koma í ljós með málefnin.“

Er raunhæft að þínu mati að taka þátt í fimm flokka stjórn?

„Það er alveg jafn raunhæft og hvað annað. Við höfum sagt í Bjartri framtíð að við erum tilbúin til að taka þátt í góðri ríkisstjórn um sterk málefni. Sagan segir okkur að sterkar tveggja flokka ríkisstjórnir eru ekkert endilega líklegri til þess að starfa vel eða endast út kjörtímabil, þannig að ég sé engin sérstök tormerki á því að það séu fleiri við borðið,“ sagði Óttarr.

Lokum engum dyrum fyrirfram

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði fundinn einnig hafa verið góðan. „Við ræddum um stjórnmálaástandið og stefnumál flokkanna. Við fórum yfir mjög langan lista af stefnumálum, bæði sem menn kannski greinir lítið á um og eins hver eru aðalstefnumál flokkanna,“ sagði Benedikt.

„Það voru engin mál sem ég myndi telja algjörlega útilokað að ná saman um en auðvitað er áherslumunur eins og vitað er.“

Benedikt segir hlutina ekki vera komna á það stig að ræða hvort hann geti hugsað sér að taka þátt í fimm flokka ríkisstjórn. „Núna er hún búin að tala við okkur og hún á eftir að vega það og meta hvort hún telur að það sé grundvöllur fyrir því og á hvaða forsendum. Þetta er nú ekki bara á milli okkar og VG heldur eru þarna tveir flokkar í viðbót. Það verður að vera einhver grundvöllur til að menn sitji saman en við lokum engum dyrum fyrirfram,“ sagði hann.

„Við erum til í að setjast niður ef það virðist vera málefnagrundvöllur, með þessum flokkum eins og öðrum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert