„Fer bara inn í þetta lausnamiðuð“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var ágætur fundur,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í samtali við mbl.is spurð um viðræður VG við Pírata, Viðreisn, Bjarta framtíð og Samfylkinguna í dag um mögulegt stjórnarsamstarf flokkanna. Þingflokkur VG fundaði í morgun og veitti Katrínu umboð til formlegra viðræðna um slíkt samstarf. Flokkarnir ætla að funda áfram á morgun.

„Minn þingflokkur veitti mér umboð til formlegra viðræðna sem varð síðan ekki raunin. Það var ákveðið að fara þess í stað frekar óformlega yfir málin áfram inn í vikuna,“ segir Katrín. Spurð hvort hún telji að þessi tilraun til þess að setja saman ríkisstjórn þessara fimm flokka sé líklegri til þess að takast en sú fyrri sem var undir forystu Katrínar segir hún:

„Ég fer bara inn í þetta lausnamiðuð og legg áherslu á málefnin hér eftir sem hingað til. Sérstaklega heilbrigðismálin og menntamálin og önnur mál sem við höfum verið að tala fyrir,“ segir hún. Spurð hvort hún sjái fyrir sér að hægt verði að brúa bilið á milli flokkanna segir Katrín að of snemmt sé að segja til um það eftir einungis fyrsta fund.

„Við sjáum bara hvernig þetta þróast á næstunni. En þetta var góður fundur,“ segir hún. Eins og fram hefur komið var ástæða þess að ákveðið var að hefja ekki strax formlegar viðræður sú að Björt framtíð og Viðreisn voru ekki reiðubúnar til þess. „Þannig að það var bara ákveðið að halda samtalinu áfram á þessum óformlegu nótum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert