Þversögn felst í niðurstöðu héraðsdóms

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur hefur ómerkt dóm héraðsdóms sem í júní dæmdi karlmann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun, frelsissviptingu og meiri háttar líkamsárás gegn sambýliskonu sinni. Skal héraðsdómur taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju. Hæstiréttur segir þversögn felast í niðurstöðu héraðsdóms og að niðurstaða kunni að vera röng.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að í héraði hafi maðurinn verið sakfelldur meðal annars fyrir frelsissviptingu, meiri háttar líkamsárás, kynferðislega áreitni, hótanir og stórfelldar ærumeiðingar gegn sambýliskonu sinni. Auk þess var hann sakfelldur fyrir nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa í kjölfar alls framangreinds þvingað konuna til munnmaka. Brotin áttu sér stað í febrúar á þessu ári.

Nægar líkur að niðurstaða héraðsdóms kunni að vera röng

Í dómi Hæstaréttar segir að það hafi verið mat héraðsdóms, að virtum vitnisburði sambýliskonunnar hjá lögreglu og fyrir dómi, að maðurinn hefði verið í góðri trú þegar hann hafði við hana endaþarmsmök í framhaldi munnmakanna og var hann með vísan til þess sýknaður af þeim sakargiftum vegna skorts á ásetningi.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar litið væri til framangreinds ofbeldis sem maðurinn hefði beitt konuna á heimili þeirra og aðstæðna allra fælist þversögn í þeirri niðurstöðu héraðsdóms að sakfella fyrir fyrri hluta háttsemislýsingar nauðgunarbrotsins en sýkna af sakargiftum vegna hennar að öðru leyti.

Voru því taldar fram komnar nægar líkur fyrir því að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála.

Því var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Frétt mbl.is: Áfram í gæsluvarðhaldi eftir misþyrmingar

Frétt mbl.is: Grunaður um að al­var­leg brot gegn sam­býl­is­konu sinni

Frétt mbl.is: Misþyrmdi sam­býl­is­konu sinni

Frétt mbl.is: Áfram gæslu­v­arðhald vegna misþyrm­ing­ar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert