Gistinóttum fjölgaði um 44%

Ferðamenn njóta hríðarinnar á Austurvelli.
Ferðamenn njóta hríðarinnar á Austurvelli. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gistinóttum á hótelum hér á landi fjölgaði um 44% í nóvember síðastliðnum, borið saman við nóvember á síðasta ári. Flestar voru gistinæturnar á höfuðborgarsvæðinu, eða 214.500, sem er 33% aukning frá sama mánuði síðasta árs.

Næstflestar voru þær á Suðurlandi eða um 35.400. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

68,1% herbergjanýting

Bretar gistu oftast íslensk hótel í mánuðinum, eða 96.200 sinnum, Bandaríkjamenn koma þar á eftir með 74.600, en Þjóðverjar gistu 18.300 sinnum. Gistinætur Íslendinga voru þá 29.700 talsins.

Herbergjanýting í nóvember 2016 var 68,1%, sem er aukning um 12,4 prósentustig frá nóvember 2015, þegar hún var 55,7%. Nýtingin var best á höfuðborgarsvæðinu, eða um 90,9%.

Fjölgaði um 128% á milli ára

Gistinætur á hótelum á Suðurnesjum í nóvember síðastliðnum voru þá 18.953, miðað við 8.301 í nóvember í fyrra, og fjölgaði þeim því um 128 prósent.

Hagstofan lætur með fylgja að eingöngu sé átt við gistinætur á þeim hótelum sem opin eru allt árið.

Frétt mbl.is: 30% gistinátta í landinu eru óskráð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert