Sagðir losa eiturefni að næturlagi

Kísilver United Silicon í Helguvík.
Kísilver United Silicon í Helguvík.

Kísilverksmiðja United Silicon hefur losað hættuleg eiturefni út í andrúmsloftið í skjóli nætur að undaförnu út úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar. Þetta er fullyrt á fréttavefnum Stundinni í kvöld. Þar segir að um sé að ræða ryk sem verði til við bruna á timbri sem notað sé til upphitunar á fyrsta ofninum af fjórum sem gangsettur var á síðasta ári.

Stundin birtir myndband sem er sagt hafa verið tekið um miðjan desember og sýna starfsmenn United Silicon hleypa eiturefnum út í andrúmsloftið á starfssvæði verksmiðjunnar í Helguvík. Fullyrt er að þetta hafi verið gert ítrekað og alltaf að næturlagi. Ekki sé þó hægt að fullyrða um magn eiturefna í losuninni þar sem henni hafi verið leynt fyrir eftirlitsstofnunum.

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, hafði ekki séð frétt Stundarinnar þegar mbl.is hafði samband við hann en sagðist ætla að kynna sér málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert