Á annað hundrað manns leita að parinu

Ef smellt er á kortið má þysja inn og út …
Ef smellt er á kortið má þysja inn og út að vild. Kort/map.is

Á annað hundrað björgunarsveitamanna eru nú að hefja leit að erlendu pari á sextugsaldri, sem varð viðskila í skipulagðri hópsleðaferð við sporð Langjökuls.

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir í samtali við mbl.is að vonskuveður sé á svæðinu, en þar eru nú sveitir frá höfuðborgarsvæðinu og af Suðurlandi.

„Næstu hópar eru nú að nálgast leitarsvæðið, svo að hin eiginlega leit er að hefjast núna. Nýjustu upplýsingar okkar herma að hópurinn hafi ekki farið á jökulinn sjálfan, heldur verið á svæðinu frá Geldingafelli og Skálpanesi að jökulsporðinum, þar sem þau sneru við.“

Síðan hafi skollið á slæmt veður með litlu skyggni og hópurinn orðið viðskila.

„Og þetta par skilaði sér ekki til baka.“

Tilkynningin barst Landsbjörg um klukkan 15.40, en það var um þrjúleytið sem það uppgötvaðist að parið hefði orðið viðskila, að sögn Þorsteins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert