Synjað um innlögn á geðdeild

Geðdeild Landspítalans við Hringbraut.
Geðdeild Landspítalans við Hringbraut. mbl.is/Sigurður Bogi

Stúlkurnar tvær sem var nauðgað á hrottafenginn hátt af sama manninum í sumar hafa báðar glímt við skelfilegar afleiðingar ofbeldisins. Foreldrar nauðgarans reyndu að fá hann lagðan inn á geðdeild eftir fyrri árásina án árangurs. 

Frétt mbl.is: Dæmdur fyrir 2 nauðganir

Líkt og Fréttatíminn greindi frá var maður, sem var á nítjánda aldursári þegar hann nauðgaði stúlkunum tveimur í sumar, dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness 30. desember sl. Stúlkurnar voru báðar fimmtán ára og liðu aðeins sex dagar á milli ofbeldisverkanna. 

Foreldrar ofbeldismannsins báru fyrir dómi að sonur þeirra hafi óskað eftir því að þau færu með hann á bráðamóttöku geðdeildar daginn eftir fyrra brotið og þau verið fullviss um að hann yrði lagður þar inn enda hafi hann verið gjörsamlega niðurbrotinn og tryði því ekki að hann hefði framið þann skelfilegasta glæp sem hægt væri að hugsa sér, eins og hann orðaði það við foreldra sína þegar hann var látinn laus úr haldi 26. júlí. 

Á bráðageðdeildinni var fyrst rætt við unga manninn og síðan foreldrana. Þeim var öllum tjáð að mögulega fengi hann inni á göngudeild innan einnar viku eða tveggja. „Þau hefðu hins vegar lítið getað gert annað en fara heim aftur með ákærða,“ er haft eftir móður mannsins í dómi héraðsdóms eftir að ljóst var að hann yrði ekki lagður þar inn. Fimm dögum síðan nauðgaði hann annarri stúlku á hrottalegan hátt. 

Hætti að fara út og var bara heima upp í sófa grátandi

Stúlkurnar hafa báðar verið í meðferð í Barnahúsi en móðir stúlkunnar sem varð fyrir seinni árásinni segir meðferðina ekki hafa hjálpað stúlkunni nóg. Hin hefur aðeins mætt í tvo af níu viðtalstímum sem hún fékk hjá sálfræðingi þar.

Dagana á eftir nauðgunina segir móðir fórnarlambsins, sem varð fyrir ofbeldi af hálfu mannsins 31. júlí, hafa verið hræðilega. Stúlkan, sem venjulega væri alltaf úti, hefði bara verið heima, grátandi uppi í sófa. Líðan stúkunnar hefði enn versnað eftir að vinir hennar fréttu af því sem gerst hafði, sem hefði eiginlega gerst strax, en stúlkan hefði upplifað sig niðurlægða. Taldi móðirin að stúlkan hefði í kjölfarið lokað á vini sína og fundið sér annan og síðri félagsskap.

Í dómnum er vísað til skýrslu sálfræðings sem segir stúlkuna sýna mjög alvarleg einkenni kvíða og alvarleg einkenni þunglyndis og streitu. Hún hafi sagt sálfræðingnum að hún hafi alltaf verið þung og fundið fyrir kvíða sem hún tengir við skólagöngu sína og skólann sjálfan sem hún segir að henni hafi aldrei liðið vel í. Hún segist þó aldrei hafa fundið eins sterkt fyrir þessum einkennum eins og eftir kynferðisofbeldið en á erfitt með að skilgreina það nánar. 

Að sögn sálfræðings sýnir stúlkan merki um forðunarhegðun en hún er algeng meðal þolenda í kjölfar áfalls og er þá nýtt sem bjargráð til að forðast það að finna fyrir tilfinningum sínum. Forðun er einnig einkenni áfallastreitu og er sá þáttur sem einna helst viðheldur einkennum áfallastreituröskunar. Stúlkan lýsti fyrir sálfræðingnum lýsti skelfilegasta augnablikinu sem hún upplifði á meðan á nauðguninni stóð, þegar þrengt var að hálsi hennar svo hún gat ekki andað og hugsaði þá um það að hún myndi deyja. En slíkar hugsanir eru það sem hefur hvað mest forspárgildi fyrir þróun áfallastreituröskunar.

Að svo stöddu er ómögulegt að segja til um það hvaða afleiðingar kynferðisofbeldið komi til með að hafa á stúlkuna til lengri tíma. Hún er enn í viðtölum og ... ekki sér fyrir endann á þeirri vinnu ..., segir í dómi héraðsdóms varðandi stúlkuna sem var seinna fórnarlamb nauðgarans. 

„Klárt ofbeldi“

Stúlkan sem ofbeldismaðurinn nauðgaði í tvígang á heimili sínu mánudaginn 25. júlí var með mikla áverka eftir ofbeldið sem hún þurfti að þola og að sögn læknis sem skoðaði hana á bráðamóttöku Landspítalans voru áverkar á hálsi hennar ekki vera eftir venjulegar gælur heldur hafi verið um að ræða áverka eftir „klárt ofbeldi“.

Mat læknirinn áverkana svo að þeir væru verulegir og kæmu ekki undan nema miklu afli og var á honum að skilja að afleiðingar af ofbeldi sem þessu gætu orðið alvarlegar stæði ofbeldið yfir í lengri tíma.

Í ákærunni kemur fram að ungi maðurinn er ákærður fyrir ofbeldi gagnvart stúlkunni með því að beita hana ofbeldi og hótun um ofbeldi. Hann tók hana kverkataki og þrengdi að öndunarvegi hennar í rúmi í svefnherbergi sínu og er stúlkan náði að komast úr rúminu og féll niður á gólf, sparkaði hann í síðuna á henni, steig á háls hennar og hótaði því að beita hana frekara ofbeldi ef hún ekki gerði það sem hann vildi.

Í kjölfarið lét hann stúlkuna hafa við sig munnmök, stakk fingrum í leggöng hennar, sleikti kynfæri hennar og hafði samfarir við stúlkuna en hann sló hana nokkrum sinnum í andlit með flötum lófa á meðan hann hafði við hana samfarir. Stuttu síðar, eftir að stúlkan hafði farið í sturtu á heimili mannsins að hans kröfu, tók hann í hnakkann á henni, sagði að þau væru ekki búin og hafði aftur samfarir við hana gegn vilja hennar, en stúlkan óttaðist manninnvegna þess ofbeldis sem hann hafði beitt hana skömmu áður. Af þessu hlaut stúlkan dreift mar á hálsi, vinstra megin og á framan verðum hálsi og undir hægra kjálkabarði auk bólgu í hálsi, mar á vinstra læri og eymsli á vinstri síðu yfir rifbeinum,segir í ákærunni sem staðfest var af dómurum í niðurstöðu héraðsdóms.

Svefnvana og vannærð

Sálfræðingur sem tók tvö viðtöl við stúlkuna, sem nú er 16 ára gömul, segir að hún hafi átt bókuð sjö viðtöl til viðbótar en hún hafi ekki mætt í þau. 

Hann lýsir henni á þennan hátt: A er 16 ára stúlka, grönn og smávaxin. Útlit hennar bar með sér að hún væri svefnvana og vannærð. Var hún með dökka bauga undir augunum og mjög föl. Útlit hennar gaf einnig til kynna mikla vanlíðan þar sem stúlkan grúfði sig niður og myndaði ekki augnsamband.

Sálfræðingurinn segir að ekki hafi náðst  meðferðarárangur og ekki tekist að greina og meta líðan stúlkunnar, hvorki með sjálfsmatslistum né klínískri nálgun í samtalsmeðferð.

„Þó er undirritaðri það ljóst að stúlkan glímir við verulega vanlíðan. Bæði er það sýnilegt á útliti hennar og holningu en kemur einnig fram í samtölum við móður og að litlu leyti í samtölum við stúlkuna sjálfa. Sterkar vísbendingar eru um áfallastreituröskun því stúlkan á augljóslega erfitt með svefn (endurupplifanir), er í mikilli forðun og á erfitt með að takast á við áreiti í umhverfinu (ofurárvekni) eins og einbeitingu í skóla,“ segir ennfremur í skriflegum vitnisburði sálfræðings. 

Breyttist á unglingsárunum

Foreldrar unga mannsins segja að þegar hann hafi komist á unglingsár hefði farið að gæta ákveðinnar reiði ákærða í garð foreldranna, án þess að þau hefðu gert sér grein fyrir því af hverju sú reiði stafaði.

Hann hafi ekkert viljað ræða það við þau. Þegar hann  kom á framhaldsskólaaldur hefði þetta ástand farið út í miklar öfgar og hann alveg hætt að tala við foreldra sína og hundsað þá að mestu.

Þegar slitnað hefði upp úr sambandi hans við stúlku sem hann hafði verið með um tíma hefði hann eignast nýja vini sem foreldrarnir hefðu mjög lítið þekkt til. Hann hefði síðan flosnað upp úr námi. Foreldrarnir hefðu haft samband við sálfræðing vegna ástandsins og ætlað að fá drenginn til hans með sér en það ekki gengið eftir. Hann hafi ekki enst í vinnu og snúið sólarhringnum við. Fram kom við réttarhöldin að hann var undir áhrifum áfengis og amfetamíns þegar hann nauðgaði stúlkunum tveimur.

„Of vondur fyrir þennan heim“

Pilturinn hafði samband við föður sinn eftir seinni nauðgunina og sagði honum að hann ætlaði að drekkja sér. Faðir hans hafði strax samband við lögreglu og fannst ungi maðurinn í flæðarmálinu fyrir neðan húsið þar sem hann hafði nauðgað stúlkunni. Samkvæmt fyrirliggjandi skýrslu sem rituð var vegna handtöku unga mannsins var hann klæddur í svartar gallabuxur, svarta peysu og einn sokk. Hann var skólaus.

Segir í skýrslunni að hann hafi verið í mjög annarlegu ástandi. Eftir honum er haft í skýrslunni að hann væri of vondur fyrir þennan heim. Þá hefði hann í sífellu talað um að hann þyrfti að tala við geðlækninn sinn vegna þess að hann væri hættulegur. Maðurinn hefði enn fremur talað um að hann vildi taka líf sitt og að hann hefði ekki áhuga á að lifa lengur í þessum heimi. Var hann handtekinn og færður í fangageymslur í þágu rannsóknar málsins og til þess að „tryggja návist og öryggi.“

Vill gefa af sér mynd sem harður ofbeldisfullur fíkill

Geðlæknir sem rannsakaði unga manninn segir í skýrslu að hann sé sakhæfur. Hann hafi engin merki um sturlun, geðrof né rugl nú og ekkert bendi til þess að hann hafi verið í slíku ástandi þegar brotin voru framin. Hann segir frá þunglyndiseinkennum sem hafa varað í langan tíma.

Hann sé ungur og persónuleikinn enn í mótun. Ýmislegt bendi til að hann eigi í erfiðleikum með að finna til samkenndar með öðrum. Hann sé reiður og eigi erfitt með að axla ábyrgð. Ýmislegt í frásögninni er ótrúverðugt, hann virðist hafa löngun til að gefa af sér mynd sem hörðum og ofbeldisfullum fíkli. Ekkert bendir þó til alvarlegrar persónuleikaröskunar, heilaskaða eða greindarskorts sem eru af þeirri gráðu að það firri hann ábyrgð gerða sinna.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að dómurinn telji engan vafa leika á um sakhæfi mannsins. Við ákvörðun refsingar hans þykir allt að einu mega hafa hliðsjón af því áliti dómkvadds matsmanns að hann hafi í nokkurn tíma glímt við einkenni þunglyndis og erfiðleika í samskiptum við aðra og að margt bendi til þess að hann hafi verið að þróa með sér persónuleikaröskun.

Fyrir liggur að maðurinn hafði bæði flosnað upp úr námi og vinnu er atvik máls gerðust og þykir ekki óvarlegt að telja að lýst ástand hans hafi þar haft sitt að segja. Í málinu liggur fyrir að hann hefur í haust, innan veggja fangelsis, stigið spor í þá átt að halda skólagöngu sinni áfram.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að virtu því sem fram kom við réttarhöldin og dómafordæmum Hæstaréttar Íslands þyki refsing hans réttilega ákveðin fangelsi í fimm ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá sunnudeginum 31. júlí 2016 að fullri dagatölu. Honum er jafnframt gert að greiða tæplega 6,4 milljónir króna í sakarkostnað, þar af fyrra fórnarlambi sínu 2 milljónir króna í miskabætur og seinna fórnarlambinu 1,4 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert