Engar nýjar vísbendingar

Leit að Birnu Brjánsdóttur hefur staðið yfir frá því á …
Leit að Birnu Brjánsdóttur hefur staðið yfir frá því á sunnudag. mbl.is/Eggert

Engar nýjar vísbendingar hafa komið fram varðandi hvar Birnu Brjánsdóttur er að finna og að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns, verður haldið áfram að leita á sömu svæðum og undanfarna daga. 

Við ætlum að einbeita okkur að ákveðnum stöðum á Reykjanesinu sem okkur finnst vera líklegri en aðrir. Við erum ekki með mikið af upplýsingum þannig að við rennum nokkuð blint í sjóinn,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is.

Að sögn Ásgeirs reynir lögreglan og svæðisstjórn björgunarsveita að hafa aðgerðirnar eins markvissar og hægt er þrátt fyrir að vísbendingarnar séu ekki miklar og jafnvel engar.

Við verðum með hópa björgunarsveitarfólks á Reykjanesinu í dag og ætlum að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar til að hjálpa okkur,“ segir Ásgeir.

Kafarar hafa lokið við að kafa á þeim svæðum sem lögreglan taldi að ástæða væri til að leita á með köfurum og verða þeir hvíldir í dag nema eitthvað gefi tilefni til þess að þeir fari af stað á ný.

Á fundi með köfurum sem tóku þátt í leitinni í gær kom fram að ágætis skilyrði hafa verið til leitar í höfninni og leitin því af ágætum gæðum, segir Ásgeir Þór. 

Gríðarlega víðfeðmt leitarsvæði

Meðal þeirra svæða sem leitað er á er Strandarheiði auk fleiri svæða á Reykjanesinu. Ásgeir bendir á að leitarsvæðið sé gríðarlega víðfeðmt, bæði Reykjanesið og Heiðmörkin. Þannig að á meðan lögreglan hefur ekki frekari vísbendingar er verið að undirbúa stóra aðgerð um helgina ef leit hefur ekki skilað árangri.

Ásgeir segir að framlag björgunarsveitarfólks við leitina að Birnu Brjánsdóttur sé ómetanlegt og þakkar vinnuveitendum þeirra fyrir að gefa sínu starfsfólki færi á að aðstoða lögregluna við rannsóknina. Eins og allir vita er starf björgunarsveitarfólks sjálfboðastarf og hafa vinnuveitendur þeirra sýnt ótrúlega þolinmæði og lánað lögreglunni starfskrafta sína í fjóra daga í röð. Björgunarsveitarfólkið hafi staðið sig frábærlega og fyrir það beri að þakka, segir Ásgeir fyrir hönd þeirra sem stjórna leitinni að Birnu. 

Hann biður jafnframt almenning um að sýna stillingu á samfélagsmiðlum og muna eftir því að Birna á stóra fjölskyldu og það geti verið hollt fyrir alla að setja sig í spor aðstandenda hennar áður en þeir setja út sínar skoðanir og vangaveltur á samfélagsmiðlum. 

Björgunarsveitarmaður að störfum.
Björgunarsveitarmaður að störfum. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert