Koma alls staðar að af landinu til að leita

Mikilvægt er að almenningur fari ekki að leita á þeim …
Mikilvægt er að almenningur fari ekki að leita á þeim svæðum sem björgunarsveitarmenn eru að störfum. Það getur spillt fyrir leitinni og skemmt slóðir. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent beiðni á allar björgunarsveitir landsins um að taka þátt í allsherjarleit að Birnu Brjánsdóttur um helgina. Leitarsvæðið er allt suðvesturhorn landsins, að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns. Ekki verður um skipulagða leit að ræða í dag en björgunarsveitarfólk er tilbúið ef einhver ný gögn koma fram sem gefa tilefni til slíks.

Aftur á móti fer þyrla Landhelgisgæslunnar til leitar eftir hádegið í dag á þeim svæðum á Reykjanesi sem erfitt er að komast fótgangandi. Landhelgisgæslan bauð fram aðstoð þyrlunnar og áhafnar hennar en fara átti í æfingarflug í dag. Þess í stað verður vísbendinga leitað sem geta veitt aðstoð við leitina að Birnu.

Ásgeir segir að beiðni hafi verið send á allar svæðisstjórnir björgunarsveita í landinu og óskað eftir aðstoð björgunarhópa. Aðgerðarstjórnir á Suðvesturlandi hafa verið kallaðar til og mun fólk úr þeim taka þátt í stjórn leitarinnar enda nær leitarsvæðið yfir nokkur svæði.

í dag eru lögregla og svæðisstjórnir björgunarsveita að skipuleggja aðgerðir …
í dag eru lögregla og svæðisstjórnir björgunarsveita að skipuleggja aðgerðir helgarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum að teikna upp og skipuleggja leitarsvæði fyrir helgina og verðum með stóra aðgerð sem stendur alla helgina,“ segir Ásgeir.

Fara af stað snemma í fyrramálið

Aðspurður segir hann að leit hefjist snemma í fyrramálið, en von er á fyrstu björgunarsveitunum utan af landi á höfuðborgarsvæðið strax í kvöld svo þeir geti tekið þátt í leitinni snemma í fyrramálið.

Ásgeir segir að bæði lögregla og björgunarsveitarfólk séu tilbúin að bregðast strax við ef eitthvað gefi tilefni til þess, það er að nýjar vísbendingar komi fram um hvar Birnu sé mögulega að finna. 

Leitin í gær skilaði engum árangri og engar nýjar vísbendingar hafa komið fram sem gefa tilefni til leitar.

Lögreglan biður almenning um að halda sig til hlés hvað varðar leit að Birnu. Það sé þakkarvert hvað almenningur hafi tekið virkan þátt í leitinni en skilaboðin frá lögreglunni nú séu þau að láta björgunarsveitarmenn um leitina um helgina. 

„Um gríðarlega stóran hóp björgunarsveitarmanna er að ræða og lögreglan biður almenning um að leyfa lögreglu og björgunarsveitarfólki að leita,“ segir Ásgeir.

Að sögn Ásgeirs er þetta fagfólk á þessu sviði og þrátt fyrir góðan ásetning er alltaf hætta á að aðrir geti spillt vettvangi, til að mynda búið til för þar sem verið er að leita og ruglað þar með leitarhunda í ríminu. Þetta geti bæði tafið og skemmt fyrir. Eins er veðurspáin slæm fyrir morgundaginn og því ekki ráðlegt að aðrir taki þátt í leitinni, segir Ásgeir í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert