Óttast synjun en halda samt í vonina

Börn í flóttamannabúðum í Grikklandi bíða í röð eftir matarúthlutun. …
Börn í flóttamannabúðum í Grikklandi bíða í röð eftir matarúthlutun. Þau börn sem koma hingað til lands sem hælisleitendur eiga oft erfiða reynslu að baki eftir að hafa verið synjað um vernd annars staðar. AFP

Þau börn sem hingað koma sem hælisleitendur hafa mörg verið á flótta í langan tíma og Ísland er jafnvel þriðja eða fjórða landið sem þau koma til, eftir að hafa fengið synjun annars staðar. Börnin eru líka oft meðvituð um að líklega verður þeim einnig synjað um alþjóðlega vernd hér á landi, en halda engu að síður í vonina.

Þetta kom fram í máli Kristrúnar Sigurjónsdóttur, deildarstjóra móttökudeildar Lækjarskóla í Hafnarfirði á málþing skólamálaráðs Kennarasambands Íslands , sem haldið var á Grand hótel nú í morgun. „Þetta eru þau börn sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu,“ sagði Kristrún og benti á að erfið staða og sú streita sem foreldrar á flótta byggju við fælu oft í sér að foreldrarnir geti ekki verið börnum sínum það bakland sem þörf er á.

Börnin beri einnig í mörgum tilfellum mikla ábyrgð sem skólayfirvöld skynji m.a. í því að bakgrunnsupplýsingar barnanna eru oft af skornum skammti og taka stundum breytingum í takt við málsmeðferð fjölskyldunnar. „Við sjáum alveg og vitum um dæmi þess að börnunum sé beitt í þágu málsmeðferðar og það þýðir að barnið er að taka mikla ábyrgð á sínar herðar,“ segir Kristrún. Málmeðferðartíminn hjá Útlendingastofnun sé langur og biðin eftir niðurstöðu sé mjög streituvaldandi fyrir alla fjölskylduna, ekki síst börnin.

Biðin eftir skólavist of löng

Ólíkt öðrum börnum á flótta þá eru þessi börn ekki komin í þetta örugga skjól. Þau vita ekkert hvað um þau verður,“ bætir hún við. „Þetta er sérstakur hópur barna með sérstakar þarfir og það er mikilvægt að vera vakandi yfir líðan þeirra og þörfum.“

Kristrún segir bið barnanna eftir að komast í skóla og daglega rútínu líka vera of langa og getur verið allt frá nokkrum vikum og upp í nokkra mánuði. „Við erum að horfa á að börn séu allt upp í 4-6 mánuði í þjónustu Útlendingastofnunnar áður en þau komast í skóla og fyrir börn er það of langur tími,“ segir hún.

Þá þurfi að útvega þessum börnum öll gögn vegna skólagöngu, m.a. öll skólagögn og fatnað. „Þetta eru fáttæk börn,“ segir Kristrún. Um 30 börn úr hópi hælisleitenda og flóttamanna hafa stundað nám í Hafnarfirði sl. 2 ár og eru flest þeirra við nám í Lækjarskóla, þar sem starfrækt er alþjóðleg móttökudeild og mikil þekking hefur skapast á undanförnum árum. Hún segir þeim börnum úr þessum hópi þó fara fjölgandi sem stunda nám í öðrum skólum bæjarins.

„Í Lækjarskóla eru bæði  börn sem eru í þjónustu Hafnarfjarðarbæjar og börn sem eru á ábyrgð Útlendingastofnunnar og þessir hópar fá ekki sömu þjónustu,“ segir Kristrún.

Alþjóðleg móttökudeild er starfrækt í Lækjarskóla í Hafnarfirði, þar sem …
Alþjóðleg móttökudeild er starfrækt í Lækjarskóla í Hafnarfirði, þar sem komin er mikil og góð reynsla af móttöku barna úr röðum flóttamanna og hælisleitenda. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Börn sem þarf að huga að sérstaklega

„Þau sem eru í þjónustu bæjarins fá leikskólavist og frístund, en hjá Útlendingastofnun er bara veitt grunnþjónusta. Við hjá Lækjarskóla höfum hins vegar ákveðið að þetta verði ekki hindrun og  höfum því verið að veita þessum börnum viðbótarþjónustu,“ segir hún og nefnir aðgengi að frístundinni, heitum mat í hádeginu sem dæmi, auk þess sem skólinn greiði fyrir þau skólaferðalög sem börnin taki þátt í.

„Okkar reynsla er sú að um er að ræða börn sem eru í mjög viðkvæmri stöðu og það þarf að huga að þeim sérstaklega.“ 

Mörg barnanna, líkt og önnur flóttabörn, eiga erfiða sögu að baki og hafi jafnvel verið á flótta í mjög langan tíma. „Við höfum verið með nemendur þar sem Ísland er kannski þriðja eða fjórða viðkomulandið.  Þau hafa fengið synjun annars staðar og eru svo að bíða hér. Af þessu sökum þá eru þau oft með brotakennda og slitrótta skólagöngu að baki,“ segir Kristrún og kveður m.a dæmi um að börn sem eigi litla og jafnvel enga skólagöngu að baki.

„Hugsa um þetta á hverjum degi“

Mörg barnanna sýna þá einkenni áfallastreituröskunar sem getur m.a. komið fram sem kvíði, depurð, pirringur og að þau forðist ákveðnar aðstæður. Skert einbeiting og doði eru líka algeng, sem og reiðiköst. Kristrún kveðst hafa rætt við leikskóla- og framhaldsskólakennara sem hafi sömu sögu að segja.  

„Við finnum líka að þessi óvissa og öryggisleysi sem börnin búa við hefur mikil áhrif á líðan þeirra.  Mörg þessara barna munu ekki fá alþjóðlega vernd hér á landi og þau gera sér mörg hver alveg grein fyrir því, sem veldur þeim kvíða þó að þau haldi líka í ákveðna von.“ Segir Kristrún þetta sérstaklega eiga við í þeim  tilfellum þar sem ein og ein fjölskylda samlanda þeirra hefur fengið vernd hér á landi.  „Allir þessir þættir hafa áhrif á námsgetu barnanna, því þau hugsa um þetta á hverjum degi.“

Hún segir þá staðreynd að fæst barnanna muni mögulega fá vernd á hér á landi ekki eiga hins vegar að draga úr þjónustunni sem börnin fái, en að skólayfirvöld ættu að huga betur að því hvaða námsgreinar nýtist börnunum best – ekki út frá hagsmunum skólans, heldur barnanna og þeirra aðstæðna sem þau búi mögulega við í framtíðinni.

„Þessi börn þurfa líka tilfinningalegan stuðning. Þau þurfa traust og nánd í rólegu umhverfi. Þá öðlumst við oft traust þeirra og heyrum sögur sem ekki er auðvelt að hlusta á. Það sem þau taka síðan með sér þegar þau fara héðan, það mun hafa áhrif á þau til framtíðar og það skiptir máli hvaða veganesti við gefum þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert