„Til í að skoða allt“

Fólk í hús­næðis­leit er margt hvert ör­vænt­ing­ar­fullt er það aug­lýs­ir …
Fólk í hús­næðis­leit er margt hvert ör­vænt­ing­ar­fullt er það aug­lýs­ir eft­ir íbúðum á Face­book. mbl

„Til í að skoða allt,“ skrifar ung kona á Facebook-síðu þar sem auglýst er eftir húsnæði til leigu. Annar auglýsir eftir herbergi fyrir vin sinn. Sá er í fastri vinnu og þarf herbergið fyrir 1. apríl. Hann getur borgað allt að 110 þúsund krónur á mánuði í leigu, „en skoðar allt.“

Auglýsingarnar er dæmigerðar fyrir þá sem leita leiguhúsnæðis. Of margir eru um of fáar íbúðir. Tilboðum rignir yfir leigusala sem hafa ekki undan að svara.

„Plís ekki senda mér pm,“ skrifar einn leigusali á Facebook-síðu þar sem hann er að auglýsa íbúð í Reykjavík til leigu og vill fá fyrirspurnir sendar í tölvupósti. Það er kannski ekki skrítið, taki hann þetta ekki fram gæti hann átt von á tugum eða jafnvel hundruðum skilaboða á Facebook, þvílík er eftirspurnin. Leigusalar fá svo oft yfir sig grimmar athugasemdir um svik og pretti, græðgi og ónot fyirr að svara ekki fyrirspurnum, fyrirspurnum sem stundum er ekki hægt að kalla neitt annað en neyðarkall.

„SOS! Bráðvantar herbergi eða stúdíóíbúð til leigu nú þegar,“ segir í einni auglýsingu. Sá fær engin svör. Því of margir eru í sambærilegri stöðu.

Borga 2.500-3.000 krónur fyrir fermetrann

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 11,5% á 12 mánuðum. Á sama tíma hefur söluverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 16,3% samkvæmt upplýsingum greiningardeildar Landsbankans.

Hundruð íbúða og herbergja eru leigðar út til ferðamanna, m.a. …
Hundruð íbúða og herbergja eru leigðar út til ferðamanna, m.a. í gegnum vefsíðuna Airbnb. AFP

Algengt verð á fermetrann í leiguíbúðum í Reykjavík er 2.500-3000 krónur. Það getur verið mun hærra en einnig lægra, allt eftir ástandi íbúðarinnar og staðsetningu hennar. Sem dæmi er 58 fermetra íbúð í 107 Reykjavík til leigu á 180 þúsund eða 3.100 kr. fermetrinn. Í 108 Reykjavík er hægt að leigja 95 fermetra íbúð á 250 þúsund krónur eða á 2.600 kr. fermetrann.

Byggja þarf þúsundir íbúða

Skýringarnar á þessari stöðu sem nú er uppi eru margar. Of fáar íbúðir hafa verið byggðar undanfarin ár. Greiningadeildir bankanna segja að byggja þurfi 8-10 þúsund íbúðir á næstu þremur árum til að halda í við fólksfjölgun og er þá ekki verið að taka fyllilega tillit til uppsafnaðrar þarfar. Mjög ólíklegt verður að teljast að af þessari miklu uppbyggingu verði.

Þá eru hundruð og stundum þúsundir íbúða og herbergja í útleigu til ferðamanna. Erlendir starfsmenn streyma einnig til landsins því hér vantar fólk í vinnu. Einhvers staðar þarf allt þetta fólk að búa. Þá halda margir að sér höndum í því umhverfi sem nú er á húsnæðismarkaði. Skörp hækkun hefur orðið á fasteignaverði síðustu mánuði og fólk þarf ráðrúm til að átta sig. Spár gera svo ráð fyrir ennfrekari hækkun á næstu þremur árum. Því spyr fólk sig: Á ég að selja eða kaupa núna? Eða bíða?

Greiningardeild Arionbanka: Hækkun húsnæðisverðs skýrist einnig af því að of …
Greiningardeild Arionbanka: Hækkun húsnæðisverðs skýrist einnig af því að of lítið hefur verið byggt síðustu ár og áætlanir hafa ekki staðist. Byggja þarf a.m.k. 8.000 íbúðir á næstu þremur árum til að halda í við fólksfjölgun og er þá ekki tekið fyllilega tillit til uppsafnaðrar þarfar. Samkvæmt okkar spá er ólíklegt að sá fjöldi náist. mbl.is/Árni Sæberg

Einfalt mál: Of margir um of fáar íbúðir

Leigusalar sem mbl.is ræddi við segja að hart sé barist um íbúðir sem auglýstar eru til leigu. Tugir umsókna eru um hverja íbúð. Fólk getur ekki átt von á því að fá íbúð á þeim stað sem það helst kýs.

„Það er skortur á íbúðum, það er engin spurning,“ segir Guðlaugur Ö. Þorsteinson hjá Leigulistanum. „Það eru of fáar íbúðir til að anna eftirspurninni. Það er bara mjög einfalt.“

Hann segir að oft hafi verið um 150 íbúðir á skrá hjá Leigulistanum en nú séu þær líklega í kringum 50. Þetta ástand hafi ríkt frá því í haust þó að sveiflur séu alltaf milli vikna og mánaða.

Guðlaugur vonar að ástandið fari að batna, m.a. með tilkomu leigufélaga. „En þetta tekur bara allt tíma. Ég vona að eftir þetta ár fari markaðurinn að rétta úr kútnum. Eins og er þá er þetta alveg í botni, ef svo má segja.“

Guðlaugur þekkir dæmi um að fólk leiti mánuðum saman að íbúð, sérstaklega ef það vill binda sig við ákveðin hverfi.

Skilaboð frá heimilislausu fólki

 „Það er brjáluð eftirspurn,“ segir leigusali sem er með nokkrar leiguíbúðir í Reykjavík á sínum snærum. „Ég hef fengið skilaboð frá fólki sem er hreinlega heimilislaust.“

Hann leigði út íbúð í Seljahverfi í haust og varð að hætta að svara fyrirspurnum eftir fimmtugasta tölvupóstinn. Hann auglýsti einnig íbúð til leigu í 104 Reykjavík og tók auglýsinguna út eftir klukkutíma. Svo mikil var eftirspurnin. Í svo vinsælum hverfum bjóða leigjendur hærra verð en auglýst er. Leigusalar hafa því úr mörgum umsóknum að velja og geta valið þá sem þeir treysta best fyrir eignum sínum. Það eru ekki alltaf þeir sem bjóða hæsta verðið.

Þessi tiltekni leigusali vill frekar leigja út íbúðir til langs tíma en skemmri, t.d. til ferðamanna. Hann segir það í raun koma á sama stað niður fjárhagslega. Það kosti mikið að sinna íbúðum ferðamanna, skipta á rúmum, þrífa og fleira. Þá þurfi að borga hærri fasteignagjöld af íbúðum í slíkri útleigu og lóðagjöldin séu einnig hærri. „Að teknu tilliti til þessa alls þá kemur það svipað út að leigja á 600 þúsund á mánuði í skammtímaleigu og 250 þúsund í langtímaleigu.“

Airbnb-íbúðir í Reykjavík voru alls 2.551 talsins í Reykjavík í …
Airbnb-íbúðir í Reykjavík voru alls 2.551 talsins í Reykjavík í apríl í fyrra. Skjáskot

Eyddi kvöldstund í að svara öllum

Fyrir nokkrum dögum var auglýst íbúð til leigu í einu af nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Leigusalinn var ekki fyrr búinn að birta auglýsinguna en fyrirspurnum fór að rigna inn. Fyrstu tvo klukkutímana bárust um 20-30. Þegar upp var staðið hafði hann úr um fimmtíu leigjendum að velja.

„Mér fannst mjög skrítið að vera í þeirri stöðu að þurfa að velja úr svona mörgum. Það eru margir sem þurfa húsnæði og allir eiga það skilið,“ segir hann.

Þessi tiltekni leigusali tók fram í auglýsingunni að fyrirspurnum yrði eingöngu svarað í tölvupósti. Hann eyddi svo heilli kvöldstund í að svara öllum. Þegar hann hafði fundið leigjanda skrifaði hann svo við auglýsinguna sína að hann þakkaði fyrir áhugann og vonaði að fólki gengi vel í húsnæðisleitinni.

„Græðgi og dónaskapur“

Leigusalinn býr í sama húsi og leiguíbúðin er í og vildi því velja leigjendur sérstaklega vel. Verðið var ekki hátt miðað við það sem viðgengst á markaðnum en engu að síður þurfti hann að þola svívirðingar í athugasemdum við auglýsinguna á Facebook. „Við fengum yfir okkur mikinn skít og fólk var að saka okkur um hitt og þetta.“

Ein athugasemdin, sem er þó dæmigerð fyrir þær sem leigusalar fá var þessi: „Leigusalar drulla hér miskunnarlaust yfir fólk með græðgi og dónaskap.“

Slíkar athugasemdir sýna vel hvernig ástandið er á markaðnum. Leigjendur fá ekki svör, leiguverð hefur hækkað svo mörgum þykir nóg um og leigusalar fá svo mörg tilboð að þeir ráða ekki við að svara öllum.

Leigusalinn sem þessar svívirðingar fékk segist þó ekki ætla að velta sér upp úr þessu. Enda hafi hann fundið góðan leigjanda. Hann segist hafa átt von á miklum áhuga á íbúðinni enda hafi hann verið búinn að kynna sér leigumarkaðinn. Þó hafi viðbrögðin komið honum á óvart. „Ég vissi að þörfin var mjög mikil. Í umsóknunum sem við fengum voru sögur frá fólki sem var í mjög miklum vandræðum. Fólk næstum því grátbað okkur um að leigja sér.“

Mbl.is mun næstu daga fjalla um húsnæðismarkaðinn, fyrst og fremst út frá sjónarhóli þeirra sem eru að leita sér að húsnæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert