Fjöldi fríverslunarsamninga á næstunni

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra. mbl.is/Golli

Hvað sem menn segja um Brexit þá er ljóst að Bretar ætla sér að vera í forystu í fríverslun í heiminum á komandi árum. Það má því gera ráð fyrir að mikið verði gert af slíkum samningum á næstunni. Ísland þarf að fylgjast vel með því, enda er Bretland fimmta stærsta viðskiptasvæði heims. Þetta kom fram í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra á morgunfundi í Norræna húsinu í dag. Yfirskrift fundarins var Framtíð utanríkisþjónustunnar: Hagsmunagæsla, tækifæri og áskoranir á komandi árum.

Guðlaugur fór yfir þróun síðustu áratuga og framtíðarsýn varðandi stækkandi millistétt í heiminum. Benti hann á að millistéttin í Kína væri í dag orðin stærri en allur íbúafjöldi Bandaríkjanna og á næstu áratugum yrði millistéttin í Indlandi stærri en sú í Kína. Sagði hann að með þessu myndu ráðstöfunartekjur fólks aukast mikið á þessum svæðum. „Við þurfum að tryggja að við getum selt vöru og þjónustu til þessara markaða,“ sagði Guðlaugur, en tók fram að þar ætti hann ekki bara við sölu á vöru, heldur einnig ferðaþjónustu og aðra þjónustusölu.

Sagði hann stóru myndina þá að fyrir 100 árum hafi 25% jarðarbúa búið í Evrópu. „Hér var auðurinn og hér voru völdin,“ sagði hann. Nú 100 árum síðar býr aðeins 6% fjölda mannkyns í Evrópu og segir hann að árið 2030 verði hlutfallið komið í 4%. „Við þurfum áfram að sinna vinaþjóðum okkar, en það er breytt heimsmynd,“ sagði Guðlaugur.

Þá nefndi hann sérstaklega þróun ferðaþjónustunnar og sagði að Íslendingar mættu ekki taka uppgangi greinarinnar sem náttúrulögmáli. Nefndi hann að flugvöllurinn í Keflavík væri í hörku samkeppni við flugvelli annnarsstaðar og með þróun í flugi og lengri flugleiðum þurfi að horfa til þess að Keflavík verði áfram stoppustöð (e. hub) fyrir mislangar flugleiðir um heiminn.

Viðskiptalífið var einnig ofarlega í huga Guðlaugs, en hann sagði að þar þyrftu stjórnvöld og atvinnulífið að fylgjast að. Vísaði hann til góðs árangurs Dana í þessum málum og sagði að fyrirmyndin í þessum efnum þyrfti að vera íslensk íþróttalið á alþjóðavettvangi. Sagði hann þau hafa gert hluti sem þau ættu ekki að geta gert og það helgaðist af því að þau stæðu saman sem einn maður. Hann tók þó fram að með þessu væri hann ekki að biðja menn um að hætta að karpa um pólitík. Aftur á móti þyrfti að standa saman út á við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert