1.700 íbúðir byggðar í Hlíðunum

Kennaraháskólareitur við Stakkahlíð.
Kennaraháskólareitur við Stakkahlíð. Mynd/A2F arkitektar

Mikil uppbygging nýrra íbúða er í farvatninu í Hlíðunum í Reykjavík, samkvæmt drögum að húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. Samtals verða íbúðirnar 1.725 talsins, flestar á Hlíðarenda. 

 

Alls eru 905 íbúðir á byggingasvæðum á framkvæmdastigi, þar af 600 á Hlíðarenda. Þar verður meðalstærð íbúða 113 fermetrar.

Á reitnum Einholti-Þverholti rísa 203 íbúðir og verður meðalstærðin 120 fermetrar. Allar verða þær í eigu húsnæðisfélaga.

Samtals verða 103 nemendaíbúðir í Ásholti og þar verða íbúðirnar litlar, eða að meðaltali 45 fermetrar.

Hlíðarendi. Mikil uppbygging er áformuð vestan undir Öskjuhlíð.
Hlíðarendi. Mikil uppbygging er áformuð vestan undir Öskjuhlíð. Tölvuteikning/Alark

 

Íbúðir sem eru í samþykktu deiliskipulagi í Hlíðunum eru 400 talsins. Allar verða þær á reitnum Nauthólsvegi-Öskjuhlíð, þar sem gert er ráð fyrir að meðaltali 53 fermetra íbúðum fyrir almenning og stúdenta við Háskólann í Reykjavík.

160 íbúðir eru í formlegu skipulagsferli á KHÍ-reitnum við Stakkahlíð. Þar verða íbúðir fyrir almenning og stúdenta og verður meðalstærð þeirra 70 fermetrar.

Á Sjómannaskólareitnum eru nemendaíbúðir á þróunarsvæði í skoðun. Reiknað er með 120 íbúðum en ekkert kemur fram í húsnæðisáætluninni um stærð þeirra.

Á Veðurstofuhæð, sem er þróunarsvæði í skoðun, er jafnframt gert ráð fyrir 140 íbúðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert