Tafir á flugi vegna óhappsins

Allir farþegar flugvélarinnar sem lenti í óphappinu voru fluttir frá …
Allir farþegar flugvélarinnar sem lenti í óphappinu voru fluttir frá borði og í flugstöðina rúmlega klukkustund eftir atvikið og þeim boðin áfallahjálp. Ljósmynd/Víkufréttir

Nokkrar tafir eru enn á flugi um Keflavíkurflugvöll vegna óhapps sem varð í gær er flugvél frá Primera Air rann út af flugbrautinni og loka þurfti vellinum. Tafir hafa verið á komum véla í morgun en flestar brottfarir hafa verið á áætlun. Tveimur ferðum var aflýst í gær hjá flugfélaginu Wizz Air.

Þetta má sjá á vef Keflavíkurflugvallar. Þar má m.a. sjá að komu vélar Icelandair frá Boston seinkaði um eina og hálfa klukkustund og komu vélar flugfélagsins frá Minneapolis um tæpar tvær stundir.

„Flugvélin kom inn til aðflugs, var síðan rifin upp aftur og kom svo inn í seinna skiptið og þá gerðist þetta. Hraðinn var rosalegur og vélin virtist ekkert ætla að stoppa. Síðan náðist að stöðva hana í lokin og hún rann út af brautinni,“ segir Guðmundur Pálmason sem var einn af farþegum flugvélarinnar í gær. 

Þegar farþegarnir úr flugvélinni komu inn í flugstöð var þeim á vegum flugfélagsins boðin áfallahjálp. Fyrst eftir lendingu var fólk eðlilega nokkuð beygt, en náði þó fljótt áttum „Það var auðvitað fyrst smá paník en ekkert þannig að fólk gengi af göflunum,“ segir Guðmundur Pálmason.

„Flugvélin var mjög lengi að reyna að lækka flugið. Við lentum í ókyrrð en síðan hélt þetta aðflug eiginlega endalaust áfram. Þegar vélin komst síðan loks niður á flugbrautina þá var hemlunarbúnaðurinn í botni og síðan bara skreið flugvélin út fyrir brautarendann,“ sagði annar farþegi, Margrét Eiríksdóttir, þegar hún lýsti atburðarásinni í samtali við mbl.is.

Hér má sjá staðsetningu vélar Primera Air fyrir utan flugbrautina …
Hér má sjá staðsetningu vélar Primera Air fyrir utan flugbrautina eftir óhappið í gær. Vélin rann út fyrir enda brautarinnar. Skjáskot/Flightradar24

Um kl. 17:20 í gær rann flugvél frá flugfélaginu Primera Air út af brautarenda brautar 19 í lendingu á Keflavíkurflugvelli. Engin slys urðu á fólki og litlar skemmdir á flugvélinni sjálfri. Ekki er ljóst hvað olli þessu óhappi að sögn upplýsingafulltrúa Isavia en rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar atvikið.

Öllum boðin áfallahjálp

Vegna óhappsins voru engin flugtök eða lendingar á vellinum á meðan verið var að hleypa farþegum frá borði og unnið var að því að fjarlægja vélina sjálfa af brautarenda. Vegna malbikunarframkvæmda er hin brautin á flugvellinum, braut 10/28, lokuð.

Ákveðið var að lenda þeim flugvélum sem áætlað var að lenda á Keflavíkurflugvelli strax eftir atvikið, annars staðar. Tvær fóru til Skotlands og ein lenti í Reykjavík. Flugvélar og farþegar sem áttu að fara í loftið frá Keflavíkurflugvelli eftir óhappið urðu fyrir töfum. Allir farþegar flugvélarinnar sem lenti í óphappinu voru fluttir frá borði og í flugstöðina rúmlega klukkustund eftir atvikið og var þeim boðin áfallahjálp af Rauða krossi Íslands, samkvæmt upplýsingum Isasvia.

Strax var undirbúin tímabundin opnun á braut 10/28 og var hún seint í gærkvöldi opnuð fyrir flugtök. Vél Primera Air var fjarlægð af brautarenda flugbrautar 01/19 í gærkvöldi og skömmu síðar var unnt að opna flugbrautina.

Við þessa röskun urðu tafir á flugi og eins var einhverjum ferðum aflýst, samkvæmt upplýsingum Isavia. Farþegar eru beðnir að hafa samband við flugfélag sitt varðandi nánari upplýsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert