Sálfræðingum á heilsugæslum fjölgað

Heilsugæsla miðbæjarins við Vesturgötu er ein 15 opinberra heilsugæsla á …
Heilsugæsla miðbæjarins við Vesturgötu er ein 15 opinberra heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Markvisst er verið að ráða sálfræðinga í heilsugæslur á landinu öllu til að auka aðgengi almennings að geðheilbrigðisþjónustu. Í mars síðastliðnum var stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslum í landinu fjölgað um 8,5. Slík stöðugildi eru því núna í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Bjarna Jónssonar, þingmannis Vinstri grænna, um geðheilbrigðisþjónustu barna.

Í svarinu kemur einnig fram að stefnt er að því að eitt stöðugildi sálfræðings verði á heilsugæslu að lágmarki á hverja 9 þúsund íbúa árið 2019. Það verkefni muni auka bæði aðgengi að þjónustu og stytta bið eftir henni.

Vísað er í aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem var samþykkt á Alþingi í apríl í fyrra.

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Skima fyrir þunglyndi og kvíða hjá börnum 

Samkvæmt áætluninni munu sveitarfélög sjá til þess að skimað verði fyrir kvíða, depurð, þunglyndi og afleiðingum áfalla hjá börnum.

Þeim börnum sem á þurfa að halda mun verða vísað áfram í frekari greiningu og meðferð. Einnig er markmið að koma á fót þverfaglegum geðheilsuteymum í samstarfi heilbrigðisþjónustu og sveitarfélaga.

Eitt af markmiðum geðheilbrigðisáætlunarinnar er að efla þjónustu á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans með því að stytta biðlista þannig að börn þurfi ekki að bíða eftir þjónustu.

Á þessu ári hafa 60 milljónir króna verið veittar til eflingar Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 er gert ráð fyrir að efla geðheilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsum enn frekar, að því er kemur fram í svari heilbrigðisráðherra.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert