Ofninn ekki ræstur í þessari viku

Unnið er að lagfæringum á ljósbogaofni United Silicon í Helguvík …
Unnið er að lagfæringum á ljósbogaofni United Silicon í Helguvík til að draga úr lyktarmengun frá verksmiðjunni. Ljósmynd/United Silicon

Enn liggur ekki fyrir hvenær ljós­boga­ofn kís­il­málmsmiðju United Silicon verður ræst­ur aft­ur. Krist­leif­ur Andrés­son, stjórn­andi ör­ygg­is- og um­hverf­is­mála hjá United Silicon, segir það þó örugglega ekki verða í þessari viku.

Ofninn hefur ekki verið í gangi frá því að eldur kom upp í kísilmálmverksmiðjunni þriðjudaginn 18. apríl. Viku síðar sendi Um­hverf­is­stofn­un frá sér til­kynn­ingu um að stofn­un­in hafi stöðvað rekst­ur verk­smiðjunn­ar vegna ítrekaðrar lyktarmengunar og að ofn­inn verði ekki ræst­ur aft­ur nema að gefnu leyfi og í sam­ráði við stofn­un­ina.

United Silicon gerði ekki athugasemdir við þá ákvörðun og hafa sérfræðingar frá norska ráðgjafa­fyr­ir­tæk­inu Multikonsult undanfarnar vikur aðstoðað fyrirtækið við að draga úr menguninni. Sérfræðingar frá framleiðanda ljósbogaofnsins hafa sömuleiðis unnið að því að bæta stöðugleika ofnsins, enda er talið að lykt­in sem íbú­ar Reykja­nes­bæj­ar finna komi þegar ofn­inn er und­ir ákveðnu álagi eða þegar slokkn­ar á hon­um.

Vongóðir um að framkvæmdum ljúki í næstu viku

„Það er ekki komin tími á að ræsa ofninn, en það verður ekki í þessari viku. Við erum langt komin með þessar framkvæmdir sem þarf að vinna í þessu, þannig að við horfum vongóðir til þess að klára í næstu viku,“ segir Kristleifur.  Ljósbogaofninn verði því mögulega ræstur seinni hluta næstu viku eða í byrjun þarnæstu viku.

„En þetta veltur svolítið á hvernig okkur gengur að vinna á morgun og um helgina,“ segir hann

Kristleifur útskýrir að sérfræðingar frá framleiðanda ofnsins hafi unnið að miklum lagfæringum og breytingum frá því að slökkt var á ofninum. „Þetta er tímafrek vinna og síðan hefur líka þurft að bíða eftir ákveðnum varahlutum og íhlutum sem eiga að hjálpa okkur í þessu.“

Gefi rautt eða grænt ljós á að ræsa ofninn

Multikonsult lagði einnig til að leitað yrði til norsku loft­rann­sókna­stofn­un­ar­inn­ar NILU (Norsk institutt for luft­forskn­ing) um að fram­kvæma mæl­ing­ar á loft­gæðum í ná­grenni verk­smiðjunn­ar þegar ljós­boga­ofn­inn verður ræst­ur að nýju. Krist­leif­ur kveðst vita til þess að það hafi verið gert. Starfsmenn United Silicon séu hins vegar ekki í neinu sambandi við NILU.

„Stofnunin ræðir alfarið við sérfræðinga Multikonsult, sem gefa síðan rautt eða grænt ljós á að ofninn verði ræstur,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert