Telur húsnæðið vera ónýtt

Frá slökkvistarfinu í dag.
Frá slökkvistarfinu í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Slökkviliðið á Akureyri hefur lokið við að slökkva í glæðum í húsnæði bátasmiðjunnar Seigs við Goðanes en mikill eldur kviknaði þar í nótt. Lögreglunni verður í framhaldinu afhentur vettvangurinn til rannsóknar á því sem gerðist.

Að sögn Hólmgeirs Þorsteinssonar, varaslökkviliðsstjóra, verður slökkviliðið áfram með eftirlit með húsinu þó svo að það hafi formlega lokið þar störfum.

„Húsið er mjög illa farið. Ég tel það vera ónýtt,“ segir Hólmgeir, spurður út í ástand bátasmiðjunnar eftir brunann. Hann kveðst ekki vita hvort húsið verði rifið. Það sé ákvörðun eiganda og tryggingafélags hans.

Slökkviliðið á Akureyri að störfum við bátasmiðjuna.
Slökkviliðið á Akureyri að störfum við bátasmiðjuna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Of áhættusamt að fara inn 

Enginn var inni í húsinu þegar eldurinn kviknaði en Hólmgeir tekur fram að aldrei hafi komið til greina að senda slökkviliðsmenn inn í húsið. „Það var ljóst frá upphafi að það væri alelda. Það var ekki um lífbjörg að ræða og það þótti alltof áhættusamt að senda þá inn.“

Tilkynning um eldinn kom korter fyrir eitt í nótt og lauk stærstum hluta slökkvistarfsins klukkan 7 í morgun. „Eftir það vorum við að þefa uppi þessar glæður og slökkva í þeim. Þær leyndust víða,“ greinir Hólmgeir frá. Þrír slökkviliðsmenn slökktu glæðurnar utan frá og notuðu m.a. körfubíl til þess.

Búið er að slökkva í glæðunum.
Búið er að slökkva í glæðunum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hólmgeir segist ekki vita hvort bátar hafi verið inni í húsinu þegar eldurinn kviknaði og hann treystir sér ekki til að meta umfang tjónsins.

Aðspurður segir hann ekkert vitað um eldsupptök. Síðast þegar eldur kviknaði bátasmiðjunni í janúar síðastliðnum var talið að eldsupptökin hafi verið sjálfsíkveikja í eldfimum vökvum í tuskum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert