Ákærður fyrir að sprauta úr slökkvitæki á fanga

Atvikið átti sér stað á Litla-Hrauni.
Atvikið átti sér stað á Litla-Hrauni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fangavörður hefur verið ákærður fyrir að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða þegar hann hugðist slökkva eld í fangaklefa á Litla-Hrauni og sprautaði úr slökkvitæki á fanga sem þar var.

Í ákæru héraðssaksóknara gegn manninum kemur fram að hann hafi í janúar á þessu ári farið í fangaklefa refsifanga til að slökkva eld sem þar hafði kviknað. Strax eftir að fangavörðurinn slökkti eldinn sprautaði hann úr léttvatnsslökkvitæki sem hann hafði meðferðis á fangann. Segir í ákærunni að sprautað hafi verið í andlit og á bringu fangans í um þrjár sekúndur.

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, staðfestir í samtali við mbl.is að þegar málið hafi komið upp hafi fangavörðurinn verið leystur undan starfsskyldu sinni. Ekki verði hins vegar tekin ákvörðun um framhaldið fyrr en endanlegur dómur fellur í málinu. Segir Páll að stofnunin muni að öðru leyti ekki tjá sig um þetta tiltekna mál.

Er þess krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Af hálfu fangans er farið fram á eina milljón í skaðabætur auk vaxta og verðtryggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert