Slógu ákvörðun um fjölgun á frest

Frá borgarstjórnarfundi.
Frá borgarstjórnarfundi. mbl.is/Styrmir Kári

Borgarstjórnarfundur tók óvænta stefnu í dag þegar meirihlutinn ákvað að vísa eigin tillögu um fjölgun borgarfulltrúa úr 15 upp í 23 aftur til forsætisnefndar. Þetta var síðasti fundur borgarstjórnar fyrir sumar og því ljóst að málið verður ekki aftur á dagskrá hjá borgarstjórn fyrr en í haust.

Lög sem samþykkt voru í ríkisstjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur kveða á um að borgarfulltrúum verði fjölgað upp í minnst 23 úr núverandi fjölda, 15, í næstu sveitarstjórnarkosningum en Jón Gunnarsson, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, hefur lýst sig andvígan því að borgin verði tilneydd til þess að fjölga fulltrúum heldur verði borgaryfirvöldum í sjálfvald sett að ákveða hvort af fjölgun fulltrúa verði.

Frétt mbl.is: Hótuðu málþófi vegna frumvarps

Jón sagði í samtali við Morgunblaðið fyrr í mánuðinum að hann hyggist leggja fram frumvarp á haustþingi, líkt og á vorþingi, sem afnemur skyldu Reykjavíkurborgar að fjölga borgarfulltrúum, en ekki tókst að koma frumvarpinu í gegnum þingið sem leið.

Í greinargerð með frumvarpinu sem Jón lagði fram á síðasta þingi segir að tilgangur þess sé að afnema þá lagaskyldu sem hvílir á Reykjavíkurborg um að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í að minnsta kosti 23 við næstu sveitarstjórnarkosningar í maí 2018 og færa það í hendur borgarstjórnar sjálfrar að ákveða hvort þörf sé á fjölgun borgarfulltrúa.

Jón Gunnarsson ætlar að leggja frumvarp fram á haustþingi sem …
Jón Gunnarsson ætlar að leggja frumvarp fram á haustþingi sem afnemur skyldu borgarinnar til að fjölga borgarfulltrúum. mbl.is

Þurfa ekki að taka afstöðu til fjölgunar, aðeins fjöldans innan gildandi laga

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, segir í samtali við mbl.is að fulltrúar forsætisnefndar hefðu sett málið á dagskrá borgarstjórnarfundar með það fyrir augum að hægt yrði að afgreiða málið á fundinum.

Í aðdraganda fundarins hafi aftur á móti einhverjir borgarfulltrúar sett sig upp á móti því að afgreiða tillöguna strax vegna óvissu um hvort frumvarp Jóns verði lagt fram í haust eða ekki, og hvort meirihluti sé fyrir því á þinginu. Líf segir ákvörðunina þá bíða til haustsins og verði vilji Alþingis í málinu þá líklega skýrari. 

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar.
Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar. mbl.is

Líf segir óvissuna óþægilega, hvort frumvarpið verði samþykkt. „Við viljum halda okkar striki og þá er þetta tilbúið og við búin að uppfylla lögin,“ segir Líf, óvissan snúist um það hvort borgarstjórn þurfi að taka afstöðu til fjölda borgarfulltrúa út frá lágmarkinu 15 eða lágmarkinu 23. 

„Þetta skiptir verulegu máli. Innan gildandi laga höfum við í raun ekki val um að fjölga, en ef lögunum er breytt þá þarf að taka alla þá umræðu á þessu tæpa ári sem er til stefnu,“ segir Líf.

Minnihlutinn furðar sig á vinnubrögðum meirihlutans

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn leggjast gegn fjölgun borgarfulltrúa upp …
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn leggjast gegn fjölgun borgarfulltrúa upp í 23. mbl.is/Árni Sæberg

Í samtali við mbl.is lýsa fulltrúar minnihlutans sig gáttaða á vinnubrögðum meirihlutans í málinu. Sjálfstæðisflokkurinn bókaði við afgreiðslu málsins en borgarfulltrúar flokksins leggjast gegn fjölgun borgarfulltrúa um 53 prósent. 

„Það vekur athygli að í stað þess að taka efnislega afstöðu til málsins skuli meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn enn einu sinni kjósa að vísa slíkri tillögu til forsætisnefndar þar sem hún hefur þegar verið til skoðunar árum saman. En þar sem um er að ræða útþenslu kerfisins þarf það ekki að koma á óvart að vinstri flokkarnir líti til fjölgunar borgarfulltrúa með sérstakri velþóknun,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. mbl.is

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, tekur í sama streng og segir meirihlutann stunda „ráðgátustjórnmál“. Hún segist vilja að ákvörðunin um fjölgun komi frá borgarstjórn, en ekki frá Alþingi.

„Ef við þurfum ekki að fjölga þá vil ég halda núverandi fjölda,“ segir Sveinbjörg en hún hefði kosið atkvæði með tillögunni í dag um fjölgun upp í lögbundið lágmark eins og það stendur í dag, 23 fulltrúa, hefði tillagan verið borin til atkvæðis.

„En ég hefði eflaust bókað að ég teldi rétt að Alþingi tæki þetta til endurskoðunar,“ segir Sveinbjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert