Sóli hefur hjólað 50 km síðan í september

Sólmundur Hólm ásamt liðsfélögum sínum í Team Sjóvá í WOW …
Sólmundur Hólm ásamt liðsfélögum sínum í Team Sjóvá í WOW Cyclothon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef hjólað áður en ekki í þessari keppni,“ segir grínistinn og fjölmiðlamaðurinn Sólmundur Hólm, eða Sóli Hólm eins og hann jafnan er kallaður. Sóli keppir í WOW Cyclothon með liði Sjóvár sem tekur þátt í keppninni í fyrsta sinn í ár. Sóli segist lítið sem ekkert hafa undirbúið sig fyrir keppnina en hann muni þó taka góða spretti fyrir liðið.

„Þessi keppni er 1.358 kílómetrar og mér reiknast til að ef þetta skiptist jafnt þá þurfum við að hjóla sirka 140 kílómetra á mann af hringnum. Ég er búinn að hjóla 50 kílómetra samtals síðan í september þannig að ef þú vilt fá einhvern til að segja þér frá hinum fullkomna undirbúningi þá ertu ekki með rétta manninn, alls ekki,“ segir Sóli. Hann kveðst þó alls ekkert kvíðinn fyrir keppninni og hlakkar til að láta sig renna um þjóðveg eitt næstu sólarhringa.

„Væntingar liðsins til mín eru afar litlar held ég. En mínar væntingar til liðsins eru að þau hjóli hlutfallslega meira heldur en ég þannig að ég sé með mikla orku þegar ég tek mína einkennisspretti,“ segir Sóli sem jafnframt hefur litlar áhyggjur af veðrinu. „Maður fer þetta bara á gleðinni og keppnisskapinu.“

Liðsmenn Sjóvár eru afar spenntir fyrir ferðalaginu og þykir ekki er verra að geta safnað fyrir gott málefni í leiðinni en Sjóvá safnar áheitum fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg líkt og önnur lið í keppninni. Liðið ætlar að taka hringinn með gleðina í fyrirrúmi en hægt er að fylgjast með ferðalagi liðsins á Snapchat undir notendanafninu „sjova-almennar“.

Í ár er áheitum safnað fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg.
Í ár er áheitum safnað fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert