Komu úr öðrum hverfum til að skemma

Hert lögreglueftirlit í Langholtshverfi hefur skilað tilætluðum árangri.
Hert lögreglueftirlit í Langholtshverfi hefur skilað tilætluðum árangri. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Tilkynningar um eignaspjöll hafa alveg dottið niður. Við erum búin að ræða við langflesta þessara unglinga sem höfðu sig mest frammi. Það virðist hafa haft áhrif,“ segir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um árangur auk­ins lög­reglu­eft­ir­lits í Lang­holts­hverfi.

Lögreglueftirlit var aukið í vor eftir langvarandi ófremdarástand í Langholtshverfi og Laugardalnum, þar sem hópur barna og unglinga gekk ítrekað berserksgang, með tilheyrandi eigna­spjöllum Þá voru dæmi um að unglingahópar réðust á jafnaldra sína.

Guðmundur segir aukið eftirlit í hverfinu hafa skilað tilætluðum árangri og samtöl við unglingana sjálfa, sem og foreldra þeirra, hafi gengið vel.

„Þetta ástand var bundið við Langholtshverfið og Laugardalinn. Það hópuðust þarna krakkar saman, líka úr öðrum hverfum; Grafarvogi, Breiðholti og víðar. Það átti sér ákveðin hópamyndum stað í hverfinu,“ segir Guðmundur, en tilgangur unglingana virðist aðeins hafa verið að skemma og valda ónæði. Hann veit ekki þess að sambærilegar hópamyndanir hafi átt sér stað í öðrum hverfum á höfuðborgarsvæðinu. „Það hefur ekki verið neitt í líkingu við þetta.“

Aðspurður af hverju ástandið hafi verið verra í þessum hverfi, en öðrum hverfum borgarinnar, segir Guðmundur erfitt að segja fyllilega til um það. „Það er kannski bara gaman að hittast þarna í Laugardalnum.“

Þrátt fyrir að góður árangur hafi náðst við að uppræta ástandið, draga úr skemmdaverkum og fræða unglingana, þá verður áfram sérstök gæsla í hverfinu. Lögreglumenn á hjólum og bílum muna sinna eftirliti, bæði einkennisklæddir og óeinkennisklæddir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert