Norðmenn annist tilraunaverkefnið

Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru stærri en þær sjúkraþyrlur sem fagráð um …
Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru stærri en þær sjúkraþyrlur sem fagráð um sjúkraflutninga leggur til að verði skoðaðar. mbl.is/Árni Sæberg

Yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi leggur til að farin verði sama leið hér á landi í sjúkraflutningum í lofti og Danir fóru með því að taka norskar þyrlur til reynslu til styttri tíma. Danir enduðu á að semja við Norðmenn um rekstur á þremur sjúkraþyrlum.

Í síðustu viku kynnti fagráð um sjúkraflutninga skýrslu um sjúkraþyrluflug hér á landi þar sem lagt er til að farið verði af stað með tilraunaverkefni í sjúkraþyrluflugi á Suðurlandi og Vesturlandi. Áætlaður útkallsfjöldi er á milli 300 og 600 á ári.

Styrmir Sigurðarson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi, leggur til að ráðist verði í fimm til sex mánaða tilraunaverkefni með t.d. Norsk Luftambulansen sem rekur sjúkraþyrluflug í Noregi og Danmörku.

Í skýrslu fagráðs kemur m.a. fram að viðbragðstími þyrla Landhelgisgæslunnar sé of langur í dag en eins að verkefni Landhelgisgæslunnar sé fyrst og fremst leit og björgun á hafi en ekki sjúkraflutningar á landi og því þurfi að taka sjúkraflutninga í lofti heildsætt til endurskoðunar. 

Landhelgisgæslan hefur gagnrýnt þessar hugmyndir og sagði Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri á aðgerðarsviði Gæslunnar, að betra væri að byggja ofan á núverandi starfsemi Landhelgisgæslunnar, verði ákveðið að efla sjúkraflutninga með því að fá hingað til lands sérstaka sjúkraþyrlu. 

Norski Luftambulansinn gæti tekið tilraunaverkefnið að sér

Danir fengu Norsk Luftambulansen til að setja upp sambærilegt tímabundið tilraunaverkefni í Danmörku á sínum tíma. „Og norski Luftambulansinn er með þrjár þyrlur þar í dag,“ segir Styrmir. Fleiri fyrirtæki koma einnig til greina að hans sögn en vert er að hafa í huga að um tilraunaverkefni sé að ræða og við lok þess yrði tekin ákvörðun um hvernig sjúkraþyrluflugi yrði háttað til framtíðar. Styrmir segir að búið sé að ræða við Norðmennina og þeir séu klárir í verkefnið ef stjórnvöld gefa grænt ljós á það.

Styrmir Sigurðarson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi.
Styrmir Sigurðarson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi. Ljósmynd/Styrmir Sigurðarson

Eins og fram hefur komið í fyrri fréttum af þessum hugmyndum fagráðsins er helmingur allra þyrluútkalla Landhelgisgæslunnar í sjúkraflug, um 130 á hverju ári. Styrmir bendir á að 70 til 90 þeirra séu inn á Suðurlandið og til viðbótar séu um 100 sjúkraflug til Vestmannaeyju með Mýflugi á hverju ári. Þar séu strax komin hátt í 200 útköll fyrir sjúkraþyrluna, en því til viðbótar koma sjúkraflutningar t.d. frá Klaustri til Reykjavíkur sem lamar aðra sjúkraflutninga á Klaustri á meðan.

„Þetta myndi auka gæði þjónustunnar og viðbragð aðila í héraði,“ segir Styrmir. Hann áætlar að kostnaðurinn við þetta prufuverkefni hlaupi á u.þ.b. 350 milljónum króna fyrir hálft ár sem svarar til kostnaðar Dana við jafn langt tilraunaverkefni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert