Undirbúa komu fimmtíu flóttamanna

Sýrlensk fjölskylda í byggðum flóttamanna í Bekaa-dalnum í Líbanon. Nýverið …
Sýrlensk fjölskylda í byggðum flóttamanna í Bekaa-dalnum í Líbanon. Nýverið varð þar eldsvoði og á myndinni má sjá fjölskylduna sitja í rústum tjalds síns. Þeir sýrlensku flóttamenn sem hingað hafa komið síðustu mánuði koma frá þessum slóðum. AFP

Von er á sjö manna fjölskyldu sýrlenskra flóttamanna til landsins síðar á árinu. Í byrjun þess næsta er von á fimmtíu kvótaflóttamönnum til viðbótar.

Stefnt var að því að taka á móti 100 kvótaflóttamönnum á tólf mánaða tímabili. 56 komu árið 2016 og í ár hafa þegar komið fjörutíu. Þegar fjölskyldan kemur á næstu vikum verður því markmiði náð. Allt er þetta flóttafólk frá Sýrlandi en hafði flúið til Líbanons undan stríðinu í heimalandinu.

Ýmislegt getur orðið til þess að tefja komu kvótaflóttamanna til Íslands enda krefst þetta ferli mikils undirbúnings og margvíslegra leyfa að utan. 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar frá því í janúar var sérstaklega tekið fram að vandað verði til reglubundinnar móttöku kvótaflóttafólks og að stefnt væri að því að taka á móti fleiri flóttamönnum hingað til lands. Fjölgunin hefur verið umtalsverð síðustu misseri og er stefnt að því að halda þeim takti áfram.

Vinna við móttöku fimmtíu flóttamanna í janúar á næsta ári er hafin að sögn Lindu Rósar Alfreðsdóttur, sérfræðings í velferðarráðuneytinu. 

Í júní fór fram fundur Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og fulltrúa þeirra ríkja sem ætla að taka við kvótaflóttamönnum á næsta ári. Hún segir að Flóttamannastofnunin leggi nú áherslu á að koma flóttamönnum frá Mið-Austurlöndum í skjól, s.s. Sýrlendingum, Írökum og Palestínumönnum. En einnig þarf að horfa til flóttafólks í Afríku en þar eru milljónir á vergangi um þessar mundir. Á næstu vikum mun koma í ljós hver verður samsetning fimmtíu manna hópsins sem hingað kemur í upphafi næsta árs.

Sýrlenski flóttamaðurinn Mahmad Nasir kom til Akureyrar í febrúar ásamt …
Sýrlenski flóttamaðurinn Mahmad Nasir kom til Akureyrar í febrúar ásamt konu sinni og þremur börnum eftir langa dvöl í flóttamannabúðum í Líbanon. Systir hans, Jouma, kom nefnilega á síðasta ári og var þá í sömu sporum. Mahmad er annar frá vinstri, kona hans Sahir við hlið hans, Joumana lengst til hægri en lengst til vinstri er maður hennar, Joumaa Naser. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Flóttamannastofnun lítur til styrk- og veikleika hvers móttökulands fyrir sig þegar ákvörðun er tekin um hvert flóttafólk fer. Styrkleikar Íslands eru m.a. þeir að staða kvenna og samkynhneigðra er hér góð og betri en gengur og gerist víða. Þá er öll grunnþjónusta til staðar, s.s. ódýrir leikskólar og góður aðgangur að heilsugæslu. Því hentar Ísland m.a. vel fyrir barnafjölskyldur. Veikleikarnir, ef svo má að orði komast, eru m.a. þeir að hér á landi er ekki að finna sérstakar miðstöðvar fyrir þá sem hafa verið pyntaðir. Aðrar þjóðir hafa meiri sérhæfingu hvað það varðar og eru betur í stakk búnar til að aðstoða flóttafólk sem upplifað hefur slíkt ofbeldi. 

Sýrlenska fjölskyldan sem nú er væntanleg mun búa á Selfossi. Síðustu misseri hafa flóttamenn þaðan sest að þar sem og á Akureyri, í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og Hveragerði. 

Íslendingar hafa nú orðið mikla reynslu í því að taka á móti flóttafólki og að sögn Lindu Rósar hefur aðlögun þeirra gengið vel. „Sveitarfélögin leggja mikinn metnað í þetta og ég held að við getum verið mjög stolt af þessu verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert