Af hverju synda hvalirnir að landi?

Gísli hallast að þeirri kenningu að hvalirnir verði áttaviltir þegar …
Gísli hallast að þeirri kenningu að hvalirnir verði áttaviltir þegar þeir komi af djúpsvæðum hafsins upp á grunnsvæði. mbl.is/Alfons Finnsson

Af hverju grindhvalir, eða marsvín, eins og hvalirnir eru líka kallaðir, synda stundum í stórum hjörðum átt að landi, þar sem ekkert bíður þeirra nema dauðinn, er að miklu leyti hulin ráðgáta. Nokkrar kenningar eru þó til um þessa hegðun þeirra, en engin ein kenning þykir viðurkenndari en önnur, að sögn Gísla Víkingssonar, sérfræðings hjá Hafrannsóknastofnun. Hann segir hvalina þó ekki vera í sjálfsmorðshugleiðingum, enda er nokkuð víst að ekki er um meðvitaða hegðun að ræða.

„Þetta hefur verið þekkt hjá grindhvölum og Færeyingar hafa nýtt sér það í þúsund ár eða svo. Búrhvalur á það líka til að koma í stórum torfum á land, en ekki svona stórum reyndar,“ segir Gísli í samtali við mbl.is

Náðu að reka þá á brott í annað sinn

Rúm­lega 100 grind­hval­ir voru rekn­ir frá landi við Bug, aust­an við Ólafs­vík á Snæ­fellsnesi, í gærdag, en stuttu síðar syntu þeir aft­ur á land við hafn­arg­arðinn í Rifi. Björgunarsveitir voru kallaðar út til að reyna að stugga hvölunum frá landi, en heimafólk á Snæfellsnesinu lagði einnig sitt af mörkum.

Hátterni grindhvala er mönnum að mörgu leyti hulin ráðgáta.
Hátterni grindhvala er mönnum að mörgu leyti hulin ráðgáta. mbl.is/Alfons Finnsson

Í seinna skiptið voru hvalirnir reknir langt út á flóann og siglt var á eftir þeim í rúman klukkutíma, til að reyna að koma í veg fyrir að þeir snéru við aftur. Það virðist hafa gengið eftir, því ekkert hefur frést af hvölunum frá því í gærkvöldi þegar þeir stefndu í átt að Vestfjörðum.

Óregla í seglusviði möguleg ástæða

„Kenningarnar eru allt frá því að þeir séu með sníkjudýr í innra eyranu, upp í að þetta tengist félagskerfinu hjá þeim, það þurfi ekki nema að forystuhvalurinn, sem öllu ræður, ruglist í ríminu og þá fylgi öll torfan. Sú kenning er reyndar ekki tekin mjög alvarlega í dag,“ segir Gísli um sérkennilegt hátterni hvalanna.

„Ein kenningin er sú að þeir nýti sér segulsvið jarðar til að rata um höfin. Segulsviðið er mjög reglulegt, en á ákveðnum svæðum á jörðinni kemur óregla í þetta reglulega mynstur. Þetta getur gerst í kringum eldfjöll, til dæmis. Það hefur verið sýnt fram á það á heimsvísu að svona strand á sér frekar stað þar sem óreglur eru í segulsviðinu. Það er samt ekki einhlítt og oft stranda þeir þar sem ekkert slíkt á sér stað.“

Hallast að kenningu um djúpsævi

Gísli segir grindhvali og aðrar tegundir sem reki svona á land í hópum, og virðast ákveðnar í því að fara að landi, eigi það sameiginlegt að eiga sín heimkynni á djúpsævi í úthafinu. Þessar tegundir nýta sér bergmálstækni til að rata um í undirdjúpunum.

Hvölunum var í tvígang stuggað frá landi í gær.
Hvölunum var í tvígang stuggað frá landi í gær. mbl.is/Alfons Finnsson

„Ein kenningin snýr að því að þegar þessir úthafshvalir koma úr sínum heimkynnum á djúpsævinu, upp á grunnsævi, sérstaklega þar sem um er að ræða aflíðandi sandstrendur, eigi þeir erfitt með að átta sig. Hvort það tengist endurkastinu á bergmálinu eða einhverju öðru, er þó ekki ljóst. Ég hallast sjálfur mest að þessari síðustu kenningu.“ Gísli segir það einnig ráðgátu af hverju hvalirnir snúa aftur að landi eftir að hafa verið reknir út á haf.

Grindhvalir eru frægir fyrir að ferðast um í stórum hjörðum, en á annað þúsund dýr geta ferðast saman. Hjarðirnar samanstanda yfirleitt af fullorðnum dýrum af báðum kynjum og afkvæmum þeirra. Áætlað er að grindhvalastofninn í Atlantshafinu sé um 500 upp í 800 þúsund dýr, sem halda sig að mestu leyti í úthafinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert