Þekkja Thomas Olsen að góðu einu

Skipverjar Polar Nanoq ræða málin sín á milli fyrir þinghaldið, …
Skipverjar Polar Nanoq ræða málin sín á milli fyrir þinghaldið, skipstjórinn fyrir miðju. mbl.is/Ófeigur

Heyra mátti á skipverjum Polar Nanoq að þeir þekkja Thomas Møller Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur, að góðu einu. Skýrslur voru teknar af sjö manns úr áhöfn grænlenska togarans í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Af máli þeirra mátti enn fremur ráða að vegna þessa hefði málið komið þeim í opna skjöldu, en saman biðu þeir brúnaþungir fyrir utan réttarsalinn eftir því að vera kallaðir inn til vitnisburðar, hver á eftir öðrum.

Skyldleiki tungumálanna tveggja, íslensku og færeysku, en allir eru þeir færeyskir, kom ítrekað í ljós í dag. Því þrátt fyrir að túlkurinn væri dönskumælandi, þar sem enginn löggiltur túlkur talar færeysku hér á landi, og þeir töluðu því dönsku í dómssalnum, svöruðu þeir gjarnan spurningum ákæruvaldsins og verjandans áður en túlkurinn hafði fengið tækifæri til að þýða þær.

Brytinn um borð sagði Thomas mjög in­dæl­an ná­unga, hann væri vin­gjarn­leg­ur og vin­sæll um borð.

„Það er erfitt að segja það núna, eft­ir allt sem hef­ur gerst, en Thom­as var ró­leg­ur og vina­leg­ur,“ sagði fyrsti stýrimaður þegar verjandi ákærða spurði hann hvernig manneskja Thomas væri.

Skipstjórinn sjálfur sagðist þá ekki hafa neitt annað en gott að segja um Thomas.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar, í Héraðsdómi Reykjaness í …
Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar, í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. mbl.is/Ófeigur

„Ekki vitað hvar hann var“

Samkvæmt frásögnum skipverjanna sjö virðist sem Nikolaj Olsen, félagi Thomasar sem einnig var í áhöfninni í janúar, hafi komið um borð í skipið í Hafnarfjarðarhöfn um klukkan sex að morgni laugardagsins 14. janúar að lokinni fjörlegri nótt í miðbæ Reykjavíkur með Thomasi.

„Ég veit að það var um sex­leytið,“ svaraði skip­stjór­inn spurður hvenær Ni­kolaj hefði komið um borð í skipið.

Fyrsti vélstjóri togarans sagðist hafa verið að horfa á sjón­varpið um klukk­an sex að morgni þegar Ni­kolaj hefði komið um borð.

Sagði hann Nikolaj hafa verið mjög drukk­inn, sem hafi verið óvenju­legt. Hann hefði þá rætt við hann þar sem ekki væri vel séð að skip­verj­ar væru drukkn­ir. Þá sagðist hann hafa haldið að Ni­kolaj hefði komið til Hafnarfjarðarhafnar með leigu­bíl.

„Ég held að hann hafi ekki vitað hvar hann var, því hann var svo full­ur,“ sagði vél­stjór­inn. Ni­kolaj sat síðar í gæslu­v­arðhaldi í tvær vik­ur vegna máls­ins.

Keyrði út á enda bryggjunnar

Skipstjórinn sagðist þá hafa séð Thom­as síðar um dag­inn keyra rauðu Kia Rio-bif­reiðina, sem áberandi var við rannsókn málsins fyrr á árinu, út á enda bryggj­unn­ar í Hafnar­f­irði. Þar hefði hann verið í fimm til tíu mín­út­ur. Að lok­um hefði hann tjáð Thom­asi að hann þyrfti að skila bíln­um því skipið væri að fara að sigla úr höfn.

Þriðji vélstjóri skipsins sagði skipið hafa átt að fara frá bryggju á fimmtu­degi en það hefði taf­ist vegna þess að þurft hefði að bíða eft­ir mönn­um frá Græn­landi. Skip­stjór­inn hefði því sagt við Thomas að hann gæti vel leigt sér bíl. Áður hafði brytinn sagt að það gerði Thomas oft til að drepa tímann í landi.

Á laug­ar­dags­morgn­in­um hefði Thom­as gengið frá bíln­um og upp land­gang­inn með hand­klæði í hendi. Hurð á vinstri hlið bíls­ins hefði þá staðið opin. Aðspurður sagðist hann ekki hafa séð hvort hand­klæðið hefði verið rakt, þar sem það hefði verið sam­an­brotið.

Fyrsti vélstjórinn sagðist hafa rætt við vinnu­fé­laga sinn um þetta. „Við héld­um að ein­hver hefði kastað upp í bíl­inn, fyrst að hand­klæðið var með.“

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari fer með ákæruvaldið í málinu.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari fer með ákæruvaldið í málinu. mbl.is/Ófeigur

Skipstjórinn las umfjöllun um málið

Vitnin voru öll á sama máli þegar þau voru spurð um hegðun Thomasar eftir að leyst var frá bryggju. Ekki hefði borið á neinu óeðlilegu í hans fari, þar til eftir að ákveðið hefði verið að snúa skipinu til hafnar samkvæmt leiðbeiningum lögreglu.

Kol­brún Bene­dikts­dótt­ir vara­héraðssak­sókn­ari spurði fyrsta stýri­mann­ skipsins, þann fimmta sem kallaður var til vitnisburðar í dag, um at­b­urðina um borð í skip­inu á meðan málið var í al­gleym­ingi á Íslandi.

„Ég kom á vakt klukk­an tvö að ís­lensk­um tíma og þá var skip­stjór­inn að lesa um rauða bíl­inn og hafði fengið mynd­ir frá út­gerðinni á Íslandi. Ég held að klukk­an fimm um nótt­ina hafi skip­inu svo verið snúið við,“ sagði stýrimaðurinn.

Þá sagði hann að skip­verj­arn­ir hefðu rætt fram og til baka hvað segja ætti Thom­asi, eftir að ljóst varð að skipinu yrði snúið við. Var afráðið að segja hon­um að um vél­ar­bil­un væri að ræða.

„Við slökkt­um líka á net­inu en sím­inn virkaði,“ bætti stýri­maður­inn við í dómssalnum í dag.

Thomas lagt saman tvo og tvo

Í ljós kom við skýrslutökurnar að Thomasi bárust textaskilaboð frá blaðamanni, þar sem bæði Birna og Kia Rio-bifreiðin bar á góma. Við það mun hann hafa ókyrrst mjög og jafnvel enn frekar við önnur skilaboð, þá frá kærustu sinni í Grænlandi: „Þú ert kannski grunaður um þetta.“

Nokkrir skipverjar sögðust hafa reynt að róa Thomas í kjölfarið.

„Hann var föl­ur og grár. Ég sagði við hann, farðu bara upp og hvíldu þig, og reyndi að róa hann,“ sagði fyrsti stýrimaðurinn. Síðar hefði hann farið í her­bergið hans, eft­ir að hafa rætt við skip­stjór­ann.

„Þá hafði hann vænt­an­lega lagt sam­an tvo og tvo, að eitt­hvað væri að,“ sagði stýri­maður­inn og bætti við að þarna hefði klukk­an lík­lega verið átta eða níu um kvöld, eða um 15 tímum eftir að skipinu var snúið við.

Sagðist hann hafa gefið Thom­asi ró­andi töflu.

„Ef þú hef­ur ekki gert neitt þá hef­urðu ekk­ert að ótt­ast,“ mun hann hafa tjáð Thom­asi, en það sama sagðist skipstjórinn hafa sagt. Thomas mun engu hafa svarað held­ur litið und­an.

Thomas hefur neitað því að hafa banað Birnu. Búist er …
Thomas hefur neitað því að hafa banað Birnu. Búist er við að hann mæti til aðalmeðferðar málsins 21. ágúst. mbl.is/Ófeigur

„Fara alltaf í baklás“

Verj­and­inn spurði yfirleitt ekki margra spurninga í morgun, í samanburði við ákæruvaldið. Athygli blaðamanns vakti þó að hann spurði fyrsta stýrimanninn út í um­mæli hans í lög­reglu­skýrslu, þess efn­is að Græn­lend­ing­ar þyldu illa mót­læti.

„Ég er stýri­maður og þarf oft að brýna raust mína við und­ir­menn mína. Græn­lend­ing­arn­ir fara alltaf í baklás og verja sig, bera hönd fyr­ir höfuð sér og benda á ein­hvern ann­an; „það var ekki ég“.“

Verjandinn spurði vitnin þá jafnan út í þráðlausa nettengingu skipsins.

„Nær hún út fyr­ir skipið?“ spurði hann brytann, sem sagðist ekki vita það. Aðspurður sagði þá fyrsti vélstjórinn að hún nýttist til að skrifa texta en væri erfið til notk­un­ar í annað en það. Ekki kom að öðru leyti fram af hverju verjandanum væri spurn um nettenginguna.

Þinghaldinu var að lokum frestað til mánudagsins 21. ágúst, eins og áður hefur komið fram. Búist er við að þá mæti Thomas í Héraðsdóm Reykjaness, þar sem ákæruvaldið mun reyna að taka af honum skýrslu.

Sjá umfjöllun mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert