Ræddi fríverslun við Gove

Guðlaugur Þór og Gove.
Guðlaugur Þór og Gove. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fundaði í dag með Michael Gove, ráðherra umhverfismála, matvælaframleiðslu og byggðamála í Bretlandi en sjávarútvegsmál heyra undir ráðuneyti hans.

Gove er staddur hér á landi til að funda með íslenskum stjórnvöldum og kynna sér sjávarútvegsstarfsemi með tengsl við Bretland.

„Það er gagnkvæmur áhugi á því að efla samstarf ríkjanna enn frekar í kjölfar Brexit og við lítum á Bretland sem afar mikilvægan bandamenn þegar kemur að fríverslun. Bretar eru nú að taka á nýjan leik stjórn á sínum sjávarútvegi og við Íslendingar erum reiðubúnir að deila með þeim reynslu okkar og þekkingu,“ segir Guðlaugur Þór í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Fyrir Breta er Ísland gott dæmi um ríki sem hefur kosið að standa utan við Evrópusambandið en á eftir sem áður í nánu samstarfi við samandið og aðildarríki þess, ekki síst í fríverslunarmálum. Við getum því miðlað af margvíslegri reynslu og um leið styrkt tengsl okkar við Bretland,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert