Þingmenn sem vilja geta haft áhrif

Guðni Ágústsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tekið getur langan tíma að koma málum í gegnum Alþingi, einkum þegar um er að ræða mál sem lögð eru fram af einstökum þingmönnum, en þingmál eru einnig stundum afgreidd með of miklum hraða þannig að nauðsynlegt er að taka þau upp á nýjan leik og laga. Hins vegar hafa þingmenn ýmsar leiðir til þess að koma málum sínum á framfæri og hafa áhrif í störfum Alþingis ef viljinn er fyrir hendi. Á sama tíma megi velta vöngum yfir ýmsum í störfum þingsins. Til að mynda það að flest frumvörp séu samin af embættismönnum.

Þetta kemur fram í máli þeirra Guðna Ágústssonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra Framsóknarflokksins, og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is vegna ákvörðunar Theodóru S. Þorsteinsdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, um að hætta á þingi um áramótin.

Frétt mbl.is: Theodóra segir af sér þingmennsku

Theodóra hyggst einbeita sér að störfum sínum í bæjarstjórn Kópavogs og hefur gefið þá skýringu á ákvörðun sinni að henni hugnist ekki starfsumhverfið á Alþingi. Þingstörfin snúist þannig ekki um stefnumótun og framkvæmd verkefna heldur fremur um að vera málstofa. Þingmenn komi hvergi að stefnumótun eða ákvarðanatöku um strauma og stefnur. Þó þeir geti óskað eftir umræðum um allt á milli himins og jarðar snúist slíkar umræður oft um það að berja sér á brjóst eða að berja á pólitískum andstæðingum sínum.

„Ég myndi segja að þetta væri uppgjöf gagnvart því mikilvæga starfi sem löggjafinn sinnir og sýndi kannski að í nokkuð óefni sé komið. Bæði það að þingmenn finni sig ekki í starfinu og í öðru lagi að þeir finnist þeir ekki komast í gegn með sín mál. En auðvitað hefur Alþingi samkvæmt lögum gríðarlega mikilvægi hlutverki að gegna og er æðsta stofnun landsins og hver sem er kosinn til setu á því af fólkinu verður auðvitað að kynna sér í hverju starfið er fólgið,“ segir Guðni. Það geti verið eilíf barátta að koma málum í gegn.

Snúist ekki bara um „einhvern kjaftagang“

„Ég man þegar ég byrjaði og flutti gott mál fyrir um þrjátíu árum. Þá sagði einn reyndasti þingmaðurinn að þetta væri nú gott mál. En ég þyrfti að tala fyrir því í um tíu ár áður en það næði fram að ganga. Þannig er auðvitað með mörg mál. En Alþingi snýst auðvitað um lýðræði og samvinnu innan flokka og á milli flokka og á milli manna. Ég held að þetta sé til marks um mikil umskipti á Alþingi og að margt nýtt fólk sem kemur þar inn finni bara ekki sína fjöl og vilji frekar vera annars staðar en í hinni umdeildu stofnun.“

Theodóra Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Theodóra Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

Fyrir vikið sé lýðræðið í nokkurri hættu að hans áliti. Bæði í ljósi þess hvernig Alþingi starfi og hvernig þingmenn tali. Flokkakerfið sé síðan í nokkurri upplausn. „Þannig að það eru nokkrir steinar sem eru svolítið valtir í lýðræðinu sem stendur.“ Spurður hvort hann telji að nýjir þingmenn séu almennt upplýstir um hvernig starfsemi Alþingis virki segir Guðni að vafalaust séu fjölmörg dæmi þess að fólk hafi takmarkaða hugmynd um það. Hann segist telja að það hafi færst í aukana í seinni tíð að þingmenn finni sig ekki í hlutverki sínu.

„Þeir sem koma inn á Alþingi og halda að þeir séu Palli einn í heiminum þeir eru dæmsir til þess að verða að nátttröllum. Þeir ætla hvorki að vinna með flokknum sínum, grasrótinni, né fólki í öðrum flokkum. Þannig að þeir ná engum takti, hvorki með öðrum þingmönnum eða Alþingi eins og það er hugsað,“ segir Guðni.

Frétt mbl.is: „Upplifi Alþingi á svipaðan hátt“

Hins vegar sé ekkert nýtt að það geti tekið langan tíma að koma málum í gegn um Alþingi þó það sé auðvitað ekki alltaf raunin. Til þess séu þó ýmsar leiðir. „Það getur gerst í gegnum ríkisstjórn sem maður styður, það er samvinnuverkefni innan flokks og á milli þeirra sem fara með meirihluta og minnihluta. Það getur alltaf smollið í gegn mál frá einstaklingi sem er gott. Það hefur alltaf verið sjaldgæfara að einn maður kæmi sínu einstaka máli óáreittur í gegn. Síðan er hægt að fá þingmenn úr öðrum flokkum til að flytja það með sér og gefa þeim hlutdeild í því. Þetta er bara ákveðin vinna og menn þurfa að kunna til verka.“

Þingið sé vissulega málstofa en eigi ekki að snúast bara um „einhvern kjaftagang“ segir Guðni. „Til að mynda málþóf um fundarstjórn forseta eins og hefur ítrekað átt sér stað. Þannig að þingið þarf bara að fara yfir sitt hlutverk, forsætisnefndin, og brýna menn í því að sýna því virðingu og starfi sínu. Mér finnst hafa vantað svolítið upp á það í seinni tíð.“

Haldið að hlutirnir gengju öðruvísi fyrir sig

„Ég fagna því að fólk skuli velja með þessum hætti vegna þess að í mínum huga áttu ekki að vera kjörinn fulltrúi á tveimur vígstöðvum, á tveimur ólíkum stjórnsýslustigum. Hins vegar er eðli þessara tveggja hlutverka gjörólíkt og því ekki hægt að bera þetta tvennt saman,“ segir Ragnheiður, vegna ákvörðunar Theodóru. Hún tekur undir með Guðna að þingmenn hafi ýmsa möguleika á því að koma málum sínum á framfæri innan þingsins.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi alþingismaður.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi alþingismaður. mbl.is/Golli

„Þingmaður getur bæði komið málum áleiðis innan síns þingflokks og hann getur komið áherslum sínum áleiðis innan nefnda og látið þær í ljós hvar og hvenær sem er og verið með breytingatillögur og unnið sem slíkur. En hins vegar er það lenska á Alþingi og hefur verið lengi, og spurning hvort því þurfi ekki að breyta, að það eru embættismenn í ráðuneytum í raun sem semja kannski flest frumvörpin sem verða síðan að lögum.

Það megi alveg velta fyrir sér því ferli. „En ef þingmaður vill þá getur hann haft áhrif með málflutningi sínum og með staðfestu sinni og ákveðni og komið sínum skoðunum áleiðis innan nefnda og í umræðum um frumvörp. Þannig að það liggi fyrir hvað viðkomandi finnst. En hins vegar varðandi það að setja landinu lög sem við eigum öll að fara eftir þá gefur það auga leið að það eru ekki bara pólitískar áherslur sem ráða þar förinni.“

Ragnheiður segist aðspurð telja að það sé algengt að fólk komi inn á Alþingi án þess að vita nákvæmlega hvernig hlutirnir virki. „Ég held að við öll sem höfum komið ný inn á þing höfum flest ef ekki öll haldið að hlutirnir gengju með öðrum hætti fyrir sig en þeir gera og að þeir gengju hraðar fyrir sig en þeir í raun og veru gera.“ Hraðinn geti síðan líka verið slíkur að þingið skili af sér afurð sem síðan þurfi að lagfæra eftir á.

„Þar komum við aftur að þeirri spurningu hverjir það eigi að vera sem semja frumvörpin. Eiga það að vera embættismenn í ráðuneytum eða eiga þingmenn að koma að því með öðrum hætti. Það er kannski verklag sem þarf að breyta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert