Enn stærstir þrátt fyrir grjótkastið

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundinum í Valhöll í gær.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundinum í Valhöll í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eftir allt sem gekk hér á, allt grjótkastið og tómatkastið í þinghúsið...eftir landsdómsmálið..., eftir allt þetta er Sjálfstæðisflokkurinn enn stærsti flokkurinn. Við erum kannski ekki með sama styrk og við áður höfðum en það voru aðrir tímar,“ sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna í hádeginu í gær.

Breyttir tímar

Hann sagði að eins og samskiptin ganga á milli fólks með aðstoð samfélagsmiðla sé auðvelt að hrífa með sér fjölda kjósenda þrátt fyrir að vera einungis með örfáar hugmyndir á blaði.

Hann nefndi Emmanuel Macron Frakklandsforseta sem dæmi um mann sem hefði stigið fram á sjónarsviðið lítt þekktur og með engan stjórnmálaflokk á bak við sig. Samt hafi honum tekist að ná kjöri sem forseti og ná meirihluta á þinginu.

„Þetta eru breyttir tímar. Þeir sem halda að þeir geti yljað sér við stuðning sem var fyrir 20 til 30 árum, þeir lifa í villu og reyk. Það þarf að hafa fyrir hlutunum og vinna fyrir hverju atkvæði. Við þurfum stanslaust að vera á tánum,“ bætti Bjarni við.

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/RAX

Enn með sömu kennitöluna

Ráðherrann talaði um að Sjálfstæðisflokkurinn væri enn „langöflugasta stjórnmálaaflið“. Samfylkingin hugsi til dæmis um að skipta um nafn og kennitölu á meðan Sjálfstæðisflokkurinn sé enn með sömu kennitöluna og langmesta grunnfylgið.

„Ég er sannfærður um að við getum náð betur til fleira fólks en þetta er allt annað verkefni, allt annar veruleiki,“ sagði hann. „Við höfum þó staðið af okkur alveg ótrúlegar breytingar sem hafa skilað því að við erum að leiða ríkisstjórnina og erum langöflugasti flokkurinn á Alþingi í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert