Brynjar: „Ég var drekinn“

Brynjar Níelsson er ekki lengur formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Brynjar Níelsson er ekki lengur formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hafði engan áhuga á að stýra þessari nefnd,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is. Brynjar var í morgun settur af sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Nýr formaður var kjörinn.

Brynjar segir að sú ráðstöfun hafi ekki komið sér á óvart, enda hafi legið fyrir að nýr meirihluti væri orðinn til í nefndinni. Hann segir að sér hafi verið tilkynnt ákvörðunin fyrir fundinn. Þess vegna hafi hann ekki mætt á fundinn.

„Ég var drekinn,“ sagði Brynjar og bætti við að honum gremdist ekki niðurstaðan. Þvert á móti væri hann dauðfeginn að vera laus við að stýra þessari nefnd. Hann hefði engan áhuga á þeim málefnum sem að nefndinni sneru. Nefndin hefði upphaflega átt að vera í höndum minnihlutans en hann hefði svo „setið uppi með hana“.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, er nýr formaður stjórnskipunar- og …
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, er nýr formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Vanhæfi eigi ekki við þingmenn

Bent hefur verið á að Brynjar hafi þekkt Robert Downey, dæmdan kynferðisfbrotamann, sem fengið hefur uppreist æru. Hann hafi auk þess verið verjandi annars dæmds kynferðisbrotamanns sem fékk æru sína uppreista. Brynjar segir að þessir hlutir skipti engu máli. „Ég þekki 20 þúsund Reykvíkinga,“ segir hann. Hann hafi unnið fyrir mörg hundruð manns. „Vanhæfi á ekkert við um þingmenn.“

Hann segir að þessi ráðstöfun hvað formennsku hans í nefndinni varðar sé hluti af taugaveiklun sem sé í gangi í pólitíkinni. „En það er ekki metnaður minn að vera formaður þessara nefndar.“

Stefnir á að halda áfram

Brynjar vill í samtali við mbl.is ekki gefa það skýrt upp hvort hann ætli að gefa kost á sér áfram í komandi kosningum. Það ráðist meðal annars af því hvernig valið verður á lista Sjálfstæðisflokksins, hvort farið verði í prófkjör eða uppstillingu á lista. Hann stefni hins vegar á að fara aftur í framboð. „Ég hef ekki tekið ákvörðun um það hvort ég ætla að fara fram. Enda skiptir það engu máli, það fer ekki allt á hliðina þótt ég yrði ekki áfram. Ég ætla ekki að segja það án nokkurs fyrirvara að ég ætli að fara fram. En ég stefni á að halda áfram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert