Eina vitið að ljúka þingi sem fyrst

Bjarni segir samtal formanna flokkanna vera að þróast.
Bjarni segir samtal formanna flokkanna vera að þróast. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta samtal er aðeins að þróast. Við erum undir góðri stjórn forseta þingsins að reyna að afmarka örfá mál sem við myndum funda um á þinginu,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra að loknum fundi flokksformanna með forseta Alþingis. Fundað var í þinghúsinu í dag í þeirri von um að hægt væri að ná samstöðu um nokkur mál sem talið er brýnt að ljúka áður en gengið verður til kosninga.

„Þetta eru mál sem varða framtíðarverklag við stjórnarskrána. Við erum að taka til umfjöllunar hugmyndir sem varða útlendingalögin, hvort það sé hægt að gera eitthvað í því. Það er verið að ræða mál dagsins, uppreist æru. Það skyldi engan undra, enda hefur dómsmálaráðherra boðað að þar þurfi að gera breytingar,“ sagði Bjarni til að taka dæmi um mál sem rætt hefur verið um.

„Svo eru önnur mál sem flokkarnir eru sammála um að þurfi að vera í traustum farvegi. Þá eru menn kannski ekki endilega að horfa á lok þessa þings heldur horfa inn í áramótin. Við getum tekið þar sem dæmi NPA-málið. Að við gerum þá það sem hægt er, þrátt fyrir að ekkert verði samþykkt á þessu þingi, til að tryggja að vinna haldi áfram. Svo að við aukum líkurnar á því að það sé hægt að lögfesta það fyrir áramót,“ sagði Bjarni, en NPA er notendastýrð persónuleg aðstoð.

Ekki frumvarp um heildarendurskoðun stjórnarskrár

Bjarni lagði fram minnisblað á fundi flokksformannanna í gær um að stjórnarskráin yrði endurskoðuð í áföngum á næstu þremur kjörtímabilum og hefur sú hugmynd lagst ágætlega í formenn flestra flokka. Hann sagði eftir fundinn í dag að hann hefði alltaf talað fyrir því að breytingar á stjórnarskrá þyrfti að gera í áföngum.

„Við áttum fund fyrir mánuði síðan, allir formennirnir, og ég sagði að í þessum áfanga skyldum við skoða tiltekin ákvæði. Ég var að sjálfsögðu að horfa til þess að þetta kjörtímabil yrði eitthvað lengra en raun ber vitni. Nú er hins vegar komið í ljós að við erum ekki að fara í endurskoðun á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili, en það var kallað eftir því fyrir mánuði síðan að við myndum koma með stærri sýn. Ég brást við því með því að koma með mína sýn á hvernig við ættum að fylgja eftir þessum áfanga sem ég hef verið að tala um.“

Bjarni sagðist sjá þetta fyrir sér þannig að á þremur kjörtímabilum verði tekinn fyrir hver áfanginn á fætur öðrum og ólíkir kaflar skoðaðir. „Það þarf ekkert endilega að þýða að öll stjórnarskráin taki breytingum. Ef við horfum til dæmis til mannréttindakaflans þá getur vel verið að niðurstaðan verði sú að það þyki ekki ástæða til breytinga þar.“

Hann segir þetta þá þýða að ekki sé verið að tala um heildarendurskoðun á stjórnarskrá i einu frumvarpi. „Ég er ekki að tala um frumvarp um neitt. Ég er bara að tala um að flokkarnir skrifi upp á að við sjáum það með sömu augum hvernig við ætlum að halda vinnunni áfram.“

Gæti teygst ef ágreiningur verður

Bjarni segist ekki sjá fyrir sér að þingfundir verði margir, ef samkomulag næst um að klára þau mál sem rædd hafa verið. Þingi geti þá jafnvel lokið í næstu viku. „Þetta verða væntanlega stuttir þingfundir með nefndarstörfum inn á milli. Þetta verða örfáir dagar.“

Verði hins vegar mikill ágreiningur um hvaða mál eigi að taka á dagskrá geti staðan orðið önnur. „Þá er aldrei að vita, okkur hefur oft tekist að funda í margar vikur. Í mínum huga er eina vitið að fara að ljúka þessu þingi sem allra fyrst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert