Krefjast lögbanns á yfirtöku Arion

United Silicon er í greiðslustöðvun.
United Silicon er í greiðslustöðvun. mbl.is/RAX

Fjórir hluthafar í United Silicon, sem haldið hafa á um 46% hlut í félaginu, lögðu í dag fram lögbannskröfu á hendur Arion banka vegna töku bankans á veðsettu hlutafé í félaginu. Þetta staðfestir hæstaréttarlögmaðurinn Þorsteinn Einarsson í samtali við mbl.is.

Á hlutahafafundi sem fram fór fyrir sléttri viku yfirtóku Arion banki og fimm lífeyrissjóðir megnið af hlutum félagsins og fara því með 98,13% eignarhlut kísilmálmverksmiðjunnar. Eins og fram hefur komið er félagið í greiðslustöðvum.

Þorsteinn, sem heldur um málið fyrir hönd félaganna fjögurra, staðfestir í samtali við mbl.is að hann hafi lagt fram lögbannsbeiðnina hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í dag. Hann segir að krafan sé lögð fram í kjölfar þess að Arion banki hafi ekki orðið við kröfum um að bakka út úr yfirtökunni. Deilt sé um hvort bankanum hafi verið heimilt að ganga að hlutafénu sem veðsett var.

Beiðnin hefur ekki verið afgreidd en Þorsteinn vonast til að hún verði tekin fyrir fyrir lok vikunnar.

Í dag var greint frá því að sýslumaður hafi samþykkt beiðni stjórn­ar United Silicon um að kyrr­setja eign­ir Magnús­ar Garðars­son­ar, stofn­anda og fyrr­ver­andi for­stjóra United Silicon. Stjórn félagsins hefur kært Magnús til embættis héraðssaksóknara vegna meintrar refsiverðrar háttsemi. Bótakrafa stjórnarinnar á hendur Magnúsi nemur 540 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert