Afbókaði 100 hótelherbergi á klukkutíma

Samgöngur milli lands og Eyja hafa verið í ólagi frá …
Samgöngur milli lands og Eyja hafa verið í ólagi frá því að Herjólfur var sendur í slipp 18. september. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Bragason, íbúi í Vestmannaeyjum og eigandi Hótels Vestmannaeyja, tók við afbókunum á yfir 100 hótelherbergjum á einum klukkutíma í gær. „Allt er þetta vegna mannlegra mistaka og rangrar ákvörðunartöku,“ segir Magnús.

Samgöngur milli lands og Eyja hafa verið í ólagi frá því að Herjólfur var sendur í slipp 18. september.

Afleysingarskipið, norska ferjan Röst, sem leigt var í stað Herjólfs gat ekki siglt ekki frá Eyj­um vegna ölduhæðar. Leyfið sem skipið hef­ur er bundið við sigl­ing­ar í Land­eyja­höfn og ef úfið er í sjó þar fer Röst hvergi, enda hef­ur skipið ekki heim­ild til að sigla í Þor­láks­höfn.

Af þeim 47 áætluðu ferðum afleysingaferjunnar voru einungis farnar 26 ferðir. Ferjusiglingar milli lands og Eyja lágu alfarið niður í þrjá daga á því 10 daga tímabili sem Röstin var við þjónustu í Eyjum.

Tafir hafa orðið á viðgerð Herjólfs þar sem varahlutur barst ekki á tilsettum tíma. Samkvæmt Eyjafréttum kom Herjólfur því aftur til Eyja, án þess að gert hafi verið við skipið. Herjólfur siglir nú frá Þorlákshöfn.

Frétt mbl.is: Fresta viðgerð á Herjólfi

Heimamenn láta sig hafa það að sigla frá Þorlákshöfn

Magnús hefur orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna afbókananna. Um er að ræða tvo stóra hópa sem áttu að koma um helgina og einn hóp sem var væntanlegur á mánudag. Magnús segir ákvaðanir um afbókanir tengjast því að Herjólfur siglir nú frá Þorlákshöfn en ekki Landeyjahöfn. „Þegar siglt er frá Þorlákshöfn þá meta menn það að það taki því ekki að koma. Þetta er fólk sem er að gista í eina nótt og þegar sitt hvor dagurinn fer í ferðalagið vill fólk ekki koma.“

Magnús segir bæjarbúa geta látið sig hafa það að sigla frá Þorlákshöfn en ekki sé hægt að bjóða ferðamönnum upp á sömu aðstæður. „Við höfum fengið að kynnast því hvað Landeyjahöfnin hefur gert gott fyrir okkur. Bærinn hefur lifnað við. Hér fórum við úr einum veitingastað úr átta, hér eru þrjú kaffihús, barir og gististaðir. Þetta er góður ferðamannastaður en okkur er haldið niðri af yfirvöldum sem sjá um samgöngumál.“  

Magnús Bragason, eigandi Hótels Vestmannaeyja, vill valdið til Vestmannaeyja þegar …
Magnús Bragason, eigandi Hótels Vestmannaeyja, vill valdið til Vestmannaeyja þegar kemur að rekstri Vestmannaeyjaferjunnar. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Vill valdið til Vestmannaeyja

Bæjarstjórn Vestmannaeyja sendi frá sér ályktun í gær þar sem krafist er þess að samgöngu­nefnd Alþing­is láti fara fram op­in­bera rann­sókn á þeim ákvörðunum sem leitt hafi til þess að sam­göng­ur milli lands og Eyja séu í lamasessi.

Frétt mbl.is: Vilja opinbera rannsókn á ferjumálinu

Nýr Herjólfur er í smíðum og búist er við því að ferjan verið tilbúin næsta sumar. Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, greindi frá því á samgönguþingi í Hveragerði í gær að Vegagerðin standi í viðræðum við Vest­manna­eyja­bæ um að Eyja­menn taki yfir rekst­ur Vest­manna­eyja­ferj­unn­ar þegar hún verði tek­in til notk­un­ar.

Magnús segist styðja þá breytingu að reksturinn verði í höndum heimamanna. „Mig langar ekki að hengja neinn persónulega en það þarf að gera þetta betur. Ef menn hafa ekki áhuga á að sinna þessu starfi, þá eiga menn að koma sér frá því. Ég upplifi það þannig að þetta sé gert af áhugaleysi fólks sem er ekki í snertingu við vandann. Ég varð af laununum mínum vegna ákvarðana þeirra. Við viljum fá valdið til okkar til Vestmannaeyja og ég styð þá ákvörðun bæjarstjórnar að valdið liggi hér því hér er skilningurinn.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert