50-60 milljóna króna tap á degi hverjum

Hringvegurinn er lokaður á tveimur stöðum í Austur-Skaftafellssýslu.
Hringvegurinn er lokaður á tveimur stöðum í Austur-Skaftafellssýslu. Eggert Jóhannesson

Tap ferðaþjónustuaðila í sveitarfélaginu Hornafirði, sem verða fyrir áhrifum vegna lokunar hringvegarins í Suðursveit, hleypur á tugum milljóna á degi hverjum á meðan ástandið varir. Þetta segir Olga M. Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Ríkis Vatnajökuls.

„Nokkrir ferðaþjónustuaðilar á svæðinu komu saman í gær og voru að reyna að meta tjónið, út frá sínum fyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum á svæðinu. Þeim taldist til að það væri á bilinu 50 til 60 milljónir yrði daglega af á meðan lokunin varir,“ segir Olga í samtali við mbl.is.

Tjónið er mikið fyrir samfélagið í heild sinni. „Það eru ferðaþjónustan og fiskvinnslan sem eru stærstu atvinnugreinarnar hérna og þetta hefur margfeldisáhrif.“

Stór vika framundan

Hin svokallaða „gullna vika“ er framundan, en það er mikil frívika í Asíu og búist var við auknum fjölda ferðamanna vegna þessa. Á flestum gististöðum var uppbókað þessa viku.

„Það voru margir búnir að undirbúa sig vel fyrir hana. Veitingastaðir eru búnir að kaupa inn mikið magn af hráefni, sem þeir væntanlega þurfa að sitja uppi með. Einhverjir hafa þó verið að bjóða upp á einhver tilboð og heimafólk ætlar að reyna að vera duglegt að fara út að borða hér,“ segir Olga.

Áhrif lokunar hringvegarins eru víðtæk. „Fatahreinsunin hérna fær ekki þvott frá sex hótelum, svo þetta hefur áhrif víða í samfélaginu hérna. Fólk kemst ekki í burtu til læknis og annarra erinda.  Það er dýrt að fljúga hérna á milli.“

Ekki allar bílaleigur tóku strax tillit til aðstæðna

Þá hafa ferðamenn þurft að skilja bíla sína eftir innan lokana hringvegarins. Ekki allar bílaleigur tóku strax tillit til stöðunnar og svekktir ferðamenn hafa lýst því við ferðaþjónustuaðila á svæðinu að þeir hafi setið uppi með reikninga upp á hundruði þúsunda, fyrir að skila bílunum ekki á réttan stað.

„Það er talsvert af bílum sem fólk hefur þurft að skilja eftir þarna á milli lokana, þar sem ferðamenn komast hvorki austur né vestur. Margar bílaleigur hafa tekið tillit til aðstæðna, en við höfum heyrt af einhverjum sem hafa verið að taka í kringum 200 þúsund og jafnvel meira. En flestar bílaleigur hafa tekið tillit til aðstæðna og skilja aðstæður.“

Samkvæmt samtölum mbl.is við aðila í bílaleigugeiranum hafa allir aðilar fellt þennan kostnað niður að lokum, þó að fyrstu viðbrögð við fyrirspurnum ferðafólks hafi ekki verið eins og æskilegast hefði verið.

Olga segir alla afþreyingar- og gistiaðila á svæðinu hafa endurgreitt ferðamönnum þann kostnað sem þeir hafi lagt út.

„Þetta er eitthvað sem enginn ræður við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert