Sveitir eru einangraðar

Ár sem falla fram í Suðursveit og á Nesjum flæmast …
Ár sem falla fram í Suðursveit og á Nesjum flæmast um aura og sanda. Vegir hafa farið í sundur svo suðurleiðin austur á Hornafjörð er ófær. Það hefur valdið búsifjum þar og ferðaþjónustufólk sér fram á stórtap. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einangrun byggða á Mýrum og í Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu um landveg verður rofin, hugsanlega í dag og í síðasta lagi á morgun. Unnið var í gær við að fylla í skörð í vegi og varnargörðum við Hólmsá, skammt fyrir vestan Höfn, og sér fyrir endann á því verkefni og þá ætti að verða fært inn á svæðið að austan.

Að vestan er lokað við Steinavötn, en í vatnsflóðunum síðastliðinn miðvikudag gróf mikið undan einum af fimm stöplum brúarinnar svo hún skekktist og sprungur komu í gólf hennar. Hugsanlegt er þó að hún verði opnuð gangandi fólki fljótlega.

Strax í dag verður hafist handa við að reisa bráðabirgðabrú yfir ána og væntir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri þess að hún verði komin í gagnið eftir viku. Þá er í skoðun að smærri bílar verði ferjaðir með trukkum yfir ána, líkt og gert var þegar brúna yfir Múlakvísl á Mýrdalssandi tók af árið 2011. Ýmsar öryggisráðstafanir þarf þó að gera, áður en farið yrði að stað, að því er fram kemur í umfjöllun um vatnavextina í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert