„Ekki pláss fyrir mig á Íslandi“

Guðný Helga Grímsdóttir var meðal þeirra kvenna sem fluttu erindi …
Guðný Helga Grímsdóttir var meðal þeirra kvenna sem fluttu erindi í dag um upplifun sína af leigumarkaðinum undanfarin ár. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson

Það var fjöldi samverkandi þátta sem orsökuðu að Hildur Hjörvar og kærastinn hennar gátu keypt sér sína fyrstu eigin íbúð núna fyrr á þessu ári. Hún sagði að í raun væri hún í forréttindastöðu þegar kæmi að ungu fólki sem væri að koma úr námi og að vera í þessari stöðu. Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi hennar á Húsnæðisþingi sem Íbúðalánasjóður hélt í dag.

Markviss ákvörðun að búa í foreldrahúsum 

Hildur sagði að bæði hún og kærasti sinn hafi getað búið hjá foreldrum sínum langt fram á þrítugsaldurinn í stað þessa að leigja. Reyndar hafi það verið markviss ákvörðun hjá þeim að vera ekki á leigumarkaði miðað við þær sögur sem þau heyrðu þaðan og því ákveðið að vera áfram heima. 

Hún sagði að það hafi svo hjálpað til að hún hafi verið hálfgerð Jóakim Aðalönd og getað nýtt sparnað frá því að hún var barn; vasapeningar úr barnaskóla, fermingarpeningur og peningur fyrir að passa börn síðar og frá vinnu með skóla.

„Örvænting einkenndi markaðinn“ 

Í vetur fóru þau svo að líta í kringum sig og leita að íbúð. „Örvænting einkenndi markaðinn,“ sagði Hildur og vísaði til þess að á sýningum á eignum sem voru undir 35 milljónum hafi verið mjög fjölmennt og tilboð yfir ásettu verði borist innan nokkurra mínúta. Þar hafi fólk verið að spila með aleiguna og jafnvel meira en það. Við það tækifæri hafi hún jafnvel velt fyrir sér hvort hún ætti frekar að skoða möguleikann á að eiga sína framtíð erlendis, enda væri staða ungs fólks hér á landi í fyrsta skipti verri en fyrri kynslóðar.

Hildur Hjörvar flutti erindi í dag á Húsnæðisþingi ÍLS.
Hildur Hjörvar flutti erindi í dag á Húsnæðisþingi ÍLS. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson

Leigusamningur til eins árs en sagt upp eftir fimm mánuði

Guðný Helga Grímsdóttir flutti einnig erindi á ráðstefnunni. Hún er sveinn í húsgagnasmíði og starfar sem smiður í dag. Hún sagðist hafa verið á leigumarkaði í sjö ár, meðal annars á stúdentagörðum og hjá fjölskyldu, en að í dag væri hún á almenna markaðinum.

Síðast gerði hún leigusamning til eins árs en var sagt upp eftir fimm mánuði. Hún hóf strax að leita að íbúð, en það eina sem stóð til boða var herbergi sem kallaði þá á að hún hefði þurft að leigja geymslu undir búslóðina.

Þrátt fyrir erfiða stöðu á markaðinum hafi hún alltaf huggað sig við að ef allt færi í vaskinn gæti hún þó farið til foreldra sinna. Hún sagðist þó aldrei hafa búist við að vera í þessari stöðu, að sjá fram á að missa íbúðina og hafa ekkert annað húsnæði en mögulega að flytja til foreldra sinna.

Flutti austur í sveitina

Eftir að hafa leitað að leiguhúsnæði í mánuð fór hún að horfa á íbúðir utan höfuðborgarsvæðisins. Þar hafi hins vegar ekki verið margar leiguíbúðir heldur. „Mér fór að líða eins og það væri ekki pláss fyrir mig á Íslandi,“ sagði hún.

Guðný sagðist hins vegar geta unnið víða við smíðar og hún hafi að lokum rekist á auglýsingu í Bændablaðinu um starf hjá bónda í Fljótsdal á Austurlandi. Þannig hafi hún náð að flytja vandann við að finna húsnæði yfir á hann. Það endaði með að hún fór austur en íbúðin þar sé líka tímabundin. Með því að líta á björtu hliðarnar sagði hún að fyrir austan næði hún þó að spara. Leigan væri ódýrari og þá væri hún búsett utan þéttbýlis og færi sjaldan í bæjarferðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert