Bærinn borgi fyrir flutning hesthúss

Eskifjörður.
Eskifjörður. mbl.is/Sigurður Bogi

Eigandi hesthúss á Símonartúni við Eskifjörð hefur óskað eftir því að Fjarðabyggð beri kostnað af flutningi hússins af svæðinu vegna aukinnar hættu á ofanflóðum og aukinnar umferðar um Helgustaðarveg.

Þetta kom fram á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðarbyggðar.

Í bréfi frá eigandanum til Fjarðarbyggðar er lagt til að hætt verði að skipuleggja svæðið við Símonartún sem framtíðar hesthúsabyggð. Lagður var fram póstur Veðurstofu Íslands frá því í júlí síðastliðnum vegna ofanflóða þar sem áhætta svæðisins er metin samsvarandi hættusvæði A.

Einnig var lagður fram póstur Vegagerðarinnar frá því í september vegna umferðar akandi og ríðandi um Helgustaðarveg og sömuleiðis póstur Ofanflóðasjóðs frá því í október vegna ofanflóðavarna á svæðinu en sjóðurinn kæmi ekki að því að verja svæðið við Símonartún.

Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hefur falið bæjarstjóra ásamt sviðstjóra framkvæmda- og umhverfissviðs að ræða við eiganda hesthússins um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert