Segir kannabissúkkulaðimálið vera einstakt

Málfríður Þorleifsdóttir.
Málfríður Þorleifsdóttir.

Kannabissúkkulaðimálið svokallaða sem nú er fyrir dómi í Danmörku, þar sem fimm manns, m.a. íslensk kona, Málfríður Þorleifsdóttir, eru sökuð um brot á dönskum fíkniefna- og læknalögum, er fyrsta málið sinnar tegundar sem kemur fyrir danska dómstóla. Málið er afar pólitískt, segir Klaus Smedegaard Rasmussen, lögmaður Málfríðar.

Í gær birtist viðtal við Málfríði í Morgunblaðinu og á mbl.is en hennar og fjögurra annarra gæti beðið allt að tíu ára fangselsisvist verði þau fundin sek. Þau útbjuggu súkkulaði sem innihélt kannabisolíu og seldu það krabbameinssjúklingum, MS-sjúklingum og öðrum sem liðu kvalir sjúkdóma sinna vegna og töldu hefðbundin lyf ekki gagnast sér.

„Mér er ekki kunnugt um að svipað mál hafi komið fyrir dómstóla hér í landi,“ segir Klaus. „Auðvitað hafa komið upp fjölmörg mál þar sem fólk hefur selt fíkniefni, en ekkert þar sem kannabis hefur eingöngu verið selt sjúklingum.“

Mikil umræða í Danmörku

Talsverð umræða er í Danmörku um hvort leyfa eigi kannabis í lækningaskyni og núna um áramótin taka gildi bráðabirgðalög til fjögurra ára þar sem það verður leyft fyrir tiltekna sjúklingahópa. Ýmsir stjórnmálamenn og fleiri hafa viljað ganga lengra og gera þetta fyrirkomulag varanlegt og að fyrirkomulagið nái til fleiri sjúklingahópa.

Klaus segir að margir stjórnmálamenn hafi komið fram og lýst yfir opinberum stuðningi við þau sjónarmið sem sakborningarnir halda fram um að leyfa ætti kannabis til lækninga. „Það er mikil umræða í gangi um hvort þetta ætti að vera löglegt eða ekki og svo virðist sem flestir stjórnmálamenn sem tjá sig um málið telji að svo eigi að vera,“ segir hann.

Það er ólöglegt að selja kannabis í Danmörku, hvort sem það er selt sem vímugjafi eða lækningalyf. Byggið þið vörnina á því að tilgangurinn helgi meðalið? „Nei, það er heldur sterkt til orða tekið. En við viljum velta upp þeirri spurningu hvort sömu viðurlög eigi að vera við því að selja kannabis sem vímugjafa og að selja það sem lyf til að hjálpa alvarlega veiku fólki að líða betur. Sú tegund kannabisefnisins sem Málfríður og félagar hennar seldu hefur ekki sömu virkni og sú tegund sem fólk notar til að komast í vímu. Þeir sem keyptu efnið gerðu það heldur ekki í þeim tilgangi að komast í vímu. Þannig að viðurlögin, ef einhver verða, ættu að vera í samræmi við það,“ segir Klaus.

Aðalmeðferð í málinu gegn Málfríði og hinum fjórum sem ákærð eru í málinu hófst í síðustu viku, henni var framhaldið í þessari viku og ráðgert er að henni ljúki í næstu viku. Dómur fellur í málinu 21. nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert