Framtíð heilbrigðiskerfisins rædd

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu, Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags …
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu, Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, Gunnlaugur Sigurjónsson, heimilislæknir og Birgir Jakobsson, landlæknir ræddu framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu í félagsvísindum í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Opinber rekstur, einkarekstur, samstarf og samkeppni í heilbrigðiskerfinu voru meðal þess sem þátttakendur í pallborðsumræðum um framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins ræddu í Háskóla Íslands í dag. Umræðurnar voru hluti af Þjóðarspeglinum, ráðstefnu í félagsvísindum.

Birgir Jakobsson landlæknir, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu, Gunnlaugur Sigurjónsson heimilislæknir, Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, tóku þátt í umræðunum. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði, sá um fundarstjórn.

Páll byrjaði á að vísa í niðurstöður nýrra rannsóknar sem Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, kynnti áður en pallborðsumræðurnar hófust. Í rannsókninni kemur meðal annars fram að 90% landsmanna vilja ríkisrekna heilbrigðisþjónustu og að 94% landsmanna telja að eyða eigi meiri fjármunum í rekstur heilbrigðiskerfisins.

„Þetta staðfestir það sem áður hefur komið fram um vilja þjóðarinnar þegar kemur að forgangsröðun til heilbrigðismála og líka því hvernig heilbrigðisþjónustan á fyrst og fremst að vera,“ segir Páll.

Innviðir, rekstur og mönnun

Páll segir að í gegnum tíðina hafi stjórnvöld átt erfitt með að aðgerðabinda vilja þjóðarinnar og vonar hann að breyting verði þar á. Hann nefndi í máli sínu þrjú atriði sem haldast í hendur þegar huga þarf að bættu heilbrigðiskerfi. „Það eru í fyrsta lagi innviðir, í öðru lagi rekstur og í þriðja lagi mönnun.“

Í innviðauppbyggingu á Ísland langt í land samanborið við önnur Evrópulönd að mati Páls. „Meðal OECD-landa verjum við minnstu evrópskra þjóða í innviðabyggingu í heilbrigðiskerfinu, um hálfu prósenti af vergri landsframleiðslu.“   

Varðandi reksturinn segir Páll að fjármagna verði rekstur heilbrigðisþjónustu með viðunandi hætti. „Það dugar ekki að telja fjármagn sem fer í innviðauppbyggingu inn í fjármagn sem vantar í rekstur, það gengur ekki. Þetta eru aðskildir hlutir, það þarf að fjármagna innviðauppbyggingu og það þarf líka að fjármagna reksturinn. Þarna vantar ennþá töluvert upp á.“

Mikilvægast og flóknast telur Páll að eiga við mönnunina. „Þar þurfum við að koma fleirum að borðinu og huga að umræðunni um heilbrigðismál og því að fólk hafi áhuga á að velja sér heilbrigðistengdar fagstéttir. Síðan þarf að tryggja í hinn endann að vinnuaðstæður og vinnuumhverfi og álag sé með þeim hætti að fólk sé tilbúið til að taka að sér störf og endast í þeim.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, telur að innviðir, rekstur og mönnun …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, telur að innviðir, rekstur og mönnun skipti sköpum þegar kemur að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fylgja þarf þeim ákvörðunum sem teknar eru

Stefna í heilbrigðismálum og hvort henni er framfylgt að fullu kom einnig til umræðu. Sigurbjörg segir að flest vandamálin í rekstri heilbrigðiskerfisins séu þess efnis að stefnan sé til en henni sé ekki fylgt eftir.

Páll segir kerfið vissulega flókið en nauðsynlegt sé að setja mikla vinnu í ferlið sem er fram undan. „Það er nauðsynlegt að við setjum mikla vinnu í það að skilgreina hvað við viljum og skipuleggjum hvernig við best náum þeim markmiðum sem við viljum ná fram, sem er sem best heilbrigðisþjónusta, og notum þær takmörkuðu auðlindir sem við höfum, bæði í mannafla og peningum. Ég held að við komumst ekkert hjá því að það verði erfið vinna því annars gerist ekkert, eina ferðina enn.“

Sigurbjörg tekur undir orð Páls en segir þeim mun mikilvægara að fylgja eftir þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar. „Það er stórhættulegt að viðhalda þeim kúltúr hérna að fylgja ekki eftir ákvörðunum þegar réttmætir aðilar eru búnir að taka þær,“ sagði Sigurbjörg, og uppskar mikið lófaklapp fyrir frá áheyrendum.

„Það er stórhættulegt fyrir opinberan spítala á Íslandi ef hann endar alltaf inni í efasemdarumræðunni.“

Frá pallborðsumræðum um framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins sem fram fóru í …
Frá pallborðsumræðum um framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins sem fram fóru í Háskóla Íslands í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert