Ríkið sýknað í máli Aldísar

Aldís Hilmarsdóttir.
Aldís Hilmarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska ríkið var í dag sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur af kæru Aldísar Hilmarsdóttur, fyrrverandi yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fór hún fram á ógildingu á tilfærslu í starfi og bætur vegna þess og eineltis sem hún taldi sig hafa orðið fyrir af hálfu lögreglustjóra.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri ákvað að færa Aldísi til í starfi og taldi Aldís að það hafi verið stjórnvaldsákvörðun sem byggði á ómálefnalegum forsendum og í raun verið illa dulbúin og fyrirvaralaus brottvikning úr starfi. Þá sakaði hún Sigríði um einelti. Fór Aldís fram á 2,3 milljónir í bætur og ógildingu á ákvörðuninni.

Sigríður hefur sagt að deildin hafi verið óstarfhæf undir stjórn Aldísar en því hafnaði Aldís við aðalmeðferð málsins. Hún hafi komið inn í erfiðar aðstæður í deild­inni og und­ir hafi kraumað mikl­ir erfiðleik­ar og hiti, meðal ann­ars vegna meintra spill­ing­ar­mála tveggja lög­reglu­full­trúa við deild­ina.

Ann­ar þeirra, Jens Gunn­ars­son, var síðar dæmd­ur fyr­ir mis­ferli í starfi en hinn var hreinsaður af ásök­un­um að lok­inni rann­sókn. Sá hafði átt í nánu sam­starfi við Al­dísi inn­an deild­ar­inn­ar en sjálf hafði Al­dís enga aðkomu að meint­um spill­ing­ar­mál­um og hef­ur ekki verið grunuð um slíkt. Friðrik Smári Björgvinsson, yf­ir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, sagði við aðalmeðferð málsins að hins vegar hafi til staðið að rannsaka meinta hylmingu af hálfu Aldísar í tengslum við þessi spillingarmál.

Sigríður sagði fyrir dómi að fjöldi kvartana hefði komið frá undirmönnum Aldísar um frammistöðu hennar sem yfirmanns. Hafi nokkrir lögreglufulltrúar hótað henni vantrausti en Sigríður hlíft henni við slíku. Þá sagði hún Aldísi hafa verið í algjörri afneitun gagnvart ástandinu í deildinni eftir að ásakanir um spillingu komu upp.

Bæði Friðrik og Jón H.B. Snorrason, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn, sögðu við aðalmeðferðina að Aldís hefði verið mikill yfirburðastarfsmaður. Aðrir lögreglufulltrúar innan deildarinnar, sem gáfu skýrslu fyrir dómi og tilheyrðu „annarri klíku“ en Aldís ku hafa tilheyrt, voru á öðru máli og sögðu hana hafa skort hæfni í mannlegum samskiptum.

Endurflytja þurfi mál Aldísar í héraðsdómi þar sem dómur var ekki kveðinn upp í málinu innan átta vikna eftir að aðalmeðferð lauk. Var það gert um síðustu mánaðamót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert