Ofbeldishegðun getur gengið í erfðir

Stundum verður ofbeldi landlægt hegðunarmynstur í fjölskyldum.
Stundum verður ofbeldi landlægt hegðunarmynstur í fjölskyldum. Rax / Ragnar Axelsson

„Í ofbeldissamböndum er algengt að annar aðilinn sé brotinn niður og niðurlægður þar til hann brotnar algjörlega saman. Tilfinningin sem viðkomandi fær er að finnast hann vera algjörlega ómögulegur og einskis virði. Gjarnan byrjar þá sá aðili sem ofbeldinu veldur að dekra við þann niðurlægða um stund með einhverjum hætti og þá er tilhneiging hjá honum að finnast allt verða gott að nýju. Þegar niðurlægði aðilinn fer að ná sér aftur á strik þá byrjar gjarnan niðurbrotsferlið á ný. Þetta er ein mynd um stjórnandi hegðun í ofbeldissambandi.“

Þetta segir Olga Ásrún Stefánsdóttir, iðjuþjálfi og fjölskyldufræðingur, sem starfar hjá Lausninni, fjölskyldu- og áfallamiðstöð, og sem aðjúnkt við Háskólann á Akureyri. Hún hefur fengið mörg erfið mál inn á borð til sín er snúa að ofbeldi í parasamböndum. Oft hafa þolendur búið við ofbeldið í fjölda ára og jafnvel gert sér grein fyrir því án þess að hafa haft burði til að koma sér út úr aðstæðunum. Enda er meira en að segja það að stíga út úr ofbeldissambandi eftir áralangt niðurrif af hálfu sambýlisaðila.

„Það er mjög erfitt að stíga út úr ofbeldissambandi. Ofbeldið er stundum þannig að þolandinn er vaktaður. Það er markvisst verið að hringja í hann og fylgjast með öllu sem gert er, sem er algjörlega óeðlilegt.“

Hafa ekki alltaf getu til að fara

Þrátt fyrir að einstaklingur geri sér grein fyrir því að hann sé beittur ofbeldi af sambýlisaðila  og hafi jafnvel leitað staðfestingar á því hjá öðrum, með því að spyrjast fyrir um það hvort ákveðin hegðun er eðlileg, er ekki þar með sagt að hann sé tilbúinn að stíga út úr sambandinu eða hafi getu til þess, að sögn Olgu Ásrúnar.

„Svo eru dæmi um það að annar aðilinn fer og leitar sér aðstoðar en þorir svo ekki að stíga út úr aðstæðunum. Þá spyr maður hvað er það sem fyllir mælinn. Viðkomandi hefur kannski vitað það í langan tíma að það er verið að beita hann ofbeldi áður en hann tekur skrefið. Þá eru líka dæmi um að fólk fari aftur til baka. Það telur sér trú um að það hafi gert rangt og það sé enginn annar staður betri fyrir það,“ segir Olga Ásrún.

Olga Ásrún Stefánsdóttir, fjölskyldufræðingur og iðjuþjálfi, fær inn oft inn …
Olga Ásrún Stefánsdóttir, fjölskyldufræðingur og iðjuþjálfi, fær inn oft inn á borð til sín erfið mál er snúa að ofbeldi í parasamböndum. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir skömmu síðan steig fram hópur kvenna undir myllumerkinu #metoo fjölskyldutengsl. Konurnar deildu sögum af kynferðisofbeldi af hálfu nákominna ættingja sem og sögum af ofbeldi af hálfu maka eða fyrrverandi maka. Lýsingar kvennanna á ofbeldi í samböndum voru margar hverjar mjög sláandi. Ein birti orðalista ofbeldismannsins. „Þú ert ógeðsleg tussa.“ „helvítis hóran þín.“ „Þú ert alltaf veik og þreytt.“ „Grjóthaltu þér, þú ert nógu óþolandi fyrir að þú þurfir ekki að vera að syngja.“ „Flott hjá þér að fá sveppasýkingu núna og eyðileggja fríið.“ „Passaðu þig bara.“ Þetta eru allt setningar sem hún mátti þola að makinn hreytti í hana og eru lýsandi fyrir andlegt ofbeldi í sambandi, stöðugt niðurrif og stjórnun.

Allir geta lent í ofbeldissambandi

Umræða um ofbeldi í parasamöndum hefur verið að opnast og það færist í aukana að konur leiti til kynsystra sinna, jafnvel með nafnlausum fyrirspurnum í ýmsum Facebook-hópum. Þá spyrjast þær gjarnan fyrir um það hvort ákveðin hegðun af hálfu sambýlisaðila sé eðlileg eða hvað þær geti gert í þeim aðstæðum sem þær eru. Yfirleitt stendur ekki á svörum. Það eru allir boðnir og búnir að ráðleggja og lýsa sinni skoðun.

Olga Ásrún segir það mjög jákvætt að fleiri stígi fram og leiti sér aðstoðar, en það geti hins vegar verið varasamt að leita ráða hjá of stórum hópi, enda verði þá ráðin of mörg og jafnvel ruglandi. Betra sé að leita ráða hjá einhverjum sem viðkomandi treystir. „Það er ekki gott að hafa of marga ráðgjafa í lífinu, sérstaklega ekki ef fólk er að stíga út úr áfalli, þá getur það orðið algjörlega ruglað. Það miða allir út frá sjálfum sér. Fólk verður að geta leitað sér ráða á sínum forsendum og þess vegna er oft gott að fara til ráðgjafa sem hefur sérþekkingu á slíkum málum. En þegar fleiri þora að segja frá þá hjálpar það auðvitað enn fleirum að stíga fram.“

Olga Ásrún segir í raun alla geta lent í ofbeldissambandi. Fyrri saga um ofbeldi verður hins vegar oft til þess að viðkomandi er lengur að átta sig á því að eitthvað er að í sambandinu og á erfiðara með að stíga út úr því. Það þarf þó ekki alltaf að vera fyrri saga um ofbeldi til að viðkomandi ílengist í sambandinu.

„Til eru mörg dæmi um konur sem hafa fundið það um leið og þær gengu inn í samband með manni að þær gátu ekki ekki treyst honum. Samt fóru þær inn í sambandið sem staðið hafði allt frá 10-30 árum þegar þær ákváðu að leita sér aðstoðar og voru þá búnar að halda heimili og jafnvel eignast mörg eignast börn með manninum. En það var alltaf þannig í sambandinu eins og þær væri skör neðar en hann. Þetta eru stórglæsilegar, klárar og vel menntaðar konur, en það skiptir engu máli. Það er svo auðvelt að brjóta fólk niður en það eru miklu erfiðara að byggja það upp að nýju.“

Varð eins og strengjabrúða sambýlismannsins

Hún segir andlegt ofbeldi að miklu leyti snúast um stjórnun og drottnun af hálfu annars aðilans í sambandinu.

„Það var kona sem sagði að þegar hún og maðurinn hennar byrjuðu að vera saman þá fór hann alltaf með henni í hárgreiðslu og út í búð að velja föt. Henni fannst þetta æðislegt, eins og hann hefði bara svona mikinn áhuga á henni, þangað til að eftir ákveðinn tíma þá uppgötvaði hún að þetta var algjör stjórnun af hans hálfu. Hann stjórnaði því hvernig hún var klippt, í hvernig fötum hún gekk og hverja hún umgekkst. Hann stjórnaði í raun öllu hennar lífi og hún var eins og strengjabrúða. Hann fékk hana til að gera ótrúlegustu hluti og hún sætti í mörg ár miklu ofbeldi af hans hálfu, bæði andlegu og líkamlegu.“

Olga Ásrún segir erfitt geta verið að laga sambönd sem …
Olga Ásrún segir erfitt geta verið að laga sambönd sem byggja á drottnun annars aðilans. Kristinn Ingvarsson

Þessi kona átti líka ofbeldissögu úr æsku, bæði af líkamlegu og andlegu ofbeldi og hennar saga er því miður saga margra annarra kvenna, að sögn Olgu Ásrúnar.

„Oft er það þannig að þegar ofbeldið byrjar snemma þá þekkirðu ekkert annað. Þú kannt bara að vera undir og láta bjóða þér alla skapaða hluti sem eru algörlega óeðlilegir. En þú áttar þig ekki á því, þú þekkir engin mörk. Þér finnst þetta allt í lagi því þú ert ekki neitt.“

Hún bendir á að stjórnandi hegðun í sambandi geti auðveldlega þróast út í alvarlegra ofbeldi og sé oft fyrsta vísbendingin um það sem koma skal.

Fórnarlambið upplifir sig sem sökudólg

Olga Ásrún segir lykilatriði að fólk vinni úr áföllum sem það verður fyrir. Það er ekki nóg að fara bara úr aðstæðunum og ætla sér að rísa upp. „Það er mjög mikilvægur þáttur að fá aðstoð, fá hjálp. Það er oft sá þáttur sem fólk á erfitt með að hafa sig í. Þegar þú ert í ofbeldissambandi þá ertu ekki með neitt sjálfstraust og þú ert líka í afneitun. Hlutirnir beinast að þér, þú ert sökudólgurinn þó þú sért það ekki. Þrátt fyrir að þú sért fórnarlamb þá upplifir þú þig sem sökudólg. Það er mjög sérstakt.“

Hún þekkir sjálf vel til ofbeldis og veit hve mikilvægt er að vinna úr áfalli til að geta haldið áfram. Annars geta afleiðingarnar komið fram síðar, jafnvel þegar fólk á síst von á. Þá eru miklar líkur á því að þeir sem stíga út úr ofbeldissambandi og vinna ekki úr reynslunni fari inn í annað slíkt samaband. „Maður sér það mjög oft. Fyrsta skrefið er að komast út úr sambandinu, svo hefst vinnan við að byggja sig upp. Tökin eru oft svo mikil af hálfu hins aðilans sambandinu að þú vorkennir honum og vilt ekki gera honum það að fara.  Sjálfsmyndin brotnar niður og meðvirknin verður partur af þínu lífi. Það koma allir aðrir á undan þér. Þú setur þig aldrei í fyrsta sætið fyrr en þú hefur unnið úr áfallinu og áttar þig á því að það er í lagi fyrir þig að hafa skoðanir.“

„Komdu litli skíturinn þinn“

Olga Ásrún segir það oft hafa mikið að segja þegar farið er út í fjölskyldumeðferð í parasamböndum, að skoða uppruna fólks. Fá að vita úr hvaða aðstæðum það kemur og hvort ákveðið hegðunarmynstur hefur viðgengist í fjölskyldum viðkomandi.

„Stundum er þetta eitthvert hegðunarmynstur sem þú hefur séð hjá foreldrum þínum eða öðrum í fjölskyldunni lengra aftur og þekkir ekki annað. Ofbeldishegðun getur verið lærð hegðun og gengið ættlið fram af ættlið líkt og meðvirkni eða alkóhólismi og fleira. Það er ótrúlega sérstakt að sjá þetta.“

Olga Ásrún bendir á að þetta eigi við um báða aðila í sambandinu, bæði þann sem beitir ofbeldinu og verður fyrir því. Þolandi í ofbeldissambandi getur talið ofbeldið eðlilegt ef viðkomandi kemur úr fjölskyldu þar sem ofbeldi viðgekkst. „Sem fjölskyldufræðingur finnst mér þessi fjölskyldusaga mjög áhugaverð. Að sjá hvað það er sem mótar einstaklinga á fyrstu árunum. Hvaða skilboð börn fá. Hvað fólk segir eða kallar börnin sín skiptir máli, eins og „komdu litli skíturinn þinn“. Fólki finnst þetta kannski fyndið, en þetta er ekki fyndið. Að senda til dæmis skilaboð til barns um að það sé bara skítur eða það sé alltaf að klúðra hlutunum. Það getur orðið að undirliggjandi tilfinningu sem það ber með sér fram á fullorðinsár.“

Fá ekki sjálfkrafa leyfi til að gera hvað sem er

Langan tíma getur tekið að vinna úr ofbeldi og leiti fólk til fagaðila er ekki nóg að mæta í tvo meðferðartíma og telja sig hafa náð bata. „Það er auðveldara að sjá þetta þegar maður hugsar um fótbrot. Þá tekur líffræðilega sex til átta vikur fyrir beinið að gróa, en svo þarftu að endurhæfa þig og ná upp krafti í vöðvunum sem hafa rýrnað í kring. Þetta tekur kannski marga mánuði. Það er algjörlega það sama með þetta andlega og líkamlega ofbeldi. Það tekur langan tíma í endurhæfingu.“

Ekki er hægt að setja mælikvarða á hve slæmt ofbeldi …
Ekki er hægt að setja mælikvarða á hve slæmt ofbeldi er. Það er upplifun einstaklingsins sem skiptir máli. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Þá segir Olga Ásrún nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að afleiðingar bæði andlegs og líkamslegs ofbeldis geti verið mjög slæmar og haft í för með sér bæði andlega og líkamlega sjúkdóma.

En er hægt að laga samband sem byggir á drottnun annars aðilans, sem kannski beitir bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi?

„Það getur verið bæði mjög flókið og erfitt og fer eftir því hversu langt ofbeldið hefur gengið. Ef það er algjörlega búið að brjóta einstakling niður í mörg ár þá er líklegt að það sé einnig búið að drepa niður allar tilfinningar fyrir ást og væntumþykju. Þá er jafnvel komin inn mikil reiði og hatur og miklu erfiðara að snúa við. Það þarf að vera mikill vilji fyrir hendi frá báðum aðilum til að gera eitthvað í málum, sem er samt ekki nóg því þeir þurfa líka að vera tilbúnir að leggja niður allar varnir sínar, þá gæti það mögulega verið hægt.“

Vert er að hafa í huga að kynferðisofbeldi getur líka viðgengist í parasamaböndum, en það er oft ofbeldið sem erfiðast er að ræða. „Það er ótrúlega algengt. Það er ekki sjálfkrafa fengið leyfi að gera hvað sem er við þig þó þú sért í sambandi. Að þvinga sambúðaraðila til kynlífs þegar hann er ekki í neinu standi til þess, er ekki í lagi. Þá er ekkert jafnræði til staðar.“

Hvaða áhrif hefur ofbeldið á þig? 

Olga Ásrún efast ekki um að byltingar eins og #metoo-byltingin hafi jákvæð áhrif og verði til þess að fleiri þori að stíga fram og leita sér aðstoðar. „Það kemst skrið á umræðuna. Þetta hefur haft margföldunaráhrif og vakið fólk til meðvitundar um að tala um ofbeldi. Það er ekki lengur þessi rosalega þöggun. Það verður vonandi eðlilegra fyrir yngra fólk að segja frá og leita sér aðstoðar.“

Hún segir líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að fólk upplifir ofbeldi á mismunandi hátt. Það sé ekki hægt að setja mælikvarða á hve slæmt ofbeldi er, heldur sé það upplifun hvers og eins sem skiptir máli. „Það er enginn sem upplifir ofbeldi eins. Þegar til dæmis margir eru að  taka þátt í sama atburði, upplifir enginn hann eins. Það sama á við um ofbeldi. Spurningin er hvernig kemur það við þig og hvaða áhrif það hefur á þig?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert