Úrkoma í Hítardal 260 mm frá því í maí

Mikil úrkoma, sífreri og jafnvel eldfjallavirkni eru meðal atriða sem …
Mikil úrkoma, sífreri og jafnvel eldfjallavirkni eru meðal atriða sem hafa verið nefnd sem mögulegar orsakir þess að stór grjótskriða féll úr Fagra­skóg­ar­fjalli við Hít­ar­dals­velli við Hítará á Mýr­um í gær. Ljósmynd/Erla Dögg Ármannsdóttir

Úrkoma í Hítardal, þar sem stór grjótskriða féll í gær, hefur mælst um 260 mm frá 1. maí. Þetta kemur fram í bloggfærslu Trausta Jónssonar veðurfræðings þar sem hann veltir meðal annars fyrir sér orsökum skriðunnar.

Óljóst er hvað olli skriðunni sem féll úr Fagra­skóg­ar­fjalli við Hít­ar­dals­velli við Hítará á Mýr­um í gær. Sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands og Landhelgisgæslunni könnuðu svæðið í gær og lík­leg­ast mun það taka nokkra daga að vinna úr þeim upp­lýs­ing­um sem safnað var.

Miklar rigningar undanfarnar vikur eru talin möguleg orsök skriðunnar og þá hefur sífreri einnig verið nefndur sem möguleg orsök. Trausti bendir á í færslu sinni að vissulega hefur rignt óvenjumikið síðastliðna tvo mánuði en að á sama tíma árið 1999 mældist meiri úrkoma á svæðinu, eða 300 mm. „Auk þess hefur úrkoma ekki verið neitt með afbrigðum undanfarna daga,“ skrifar Trausti.

Þá telur hann að ef sífreri leynist á svæðinu kæmi það nokkuð á óvart. „Fyrir aðeins fáeinum árum hefði það verið talið nánast útilokað – en ólíkindalegur sífreri í skriðu norður á Ströndum fyrir nokkrum árum breytti nokkuð líkindalegunni í þessum efnum – úr útilokuðu í eitthvað annað.“

Trausti nefnir einnig að eldvirkni gæti mögulega haft eitthvað að segja um skriðufallið. „Rétt er líka að minnast á annað atriði (þó að ritstjórinn sé glórulaus á þeim vettvangi eins og í skriðufræðunum). Þetta svæði er mjög eldvirkt og í Hítardal má finna fjölbreyttar gosmyndanir auk þess sem fleira hefur gengið þar á. Svæðið allt krosssprungið og gengið til auk þess sem þar er athyglisvert vatnafar. Mjög bagalegt er hversu illa er fylgst með Snæfellsnesgosbeltinu með mælum,“ skrifar Trausti.

Hann bíður spenntur, líkt og eflaust fleiri, eftir mælingum á stærð hlaupsins og greiningu á uppruna þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert