Gylfi kveður: „Allt er breytingum háð“

„Nú skiljast leiðir en hvor fer betri för er öllum …
„Nú skiljast leiðir en hvor fer betri för er öllum hulið nema guðinum.“ mbl.is/Árni Sæberg

Gylfi Arnbjörnsson, fráfarandi forseti Alþýðusambands Íslands, setti 43. þing sambandsins í morgun og notaði tækifærið til þess að rifja upp árangur ASÍ frá því að hann tók við formennsku fyrir tíu árum, 24. október 2008, skömmu eftir að Geir H. Haarde hafði beðið Guð að blessa Ísland og sama dag og íslensk stjórnvöld sóttu um neyðaraðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og mótmæli hófust á Austurvelli.

Gylfi sagði enn deilt um það hvort ASÍ hafi risið undir hlutverki sínu, en að hafa beri í huga að ekkert samfélag í hinum vestræna heimi og engin verkalýðshreyfing hefði áður staðið frammi fyrir öðru eins.

„Það var aðeins eitt sem kom aldrei til greina og það var að leggja árar í bát,“ sagði Gylfi og að þarna hafi raunverulegur styrkur Alþýðusambandsins, sem helst felst í því að 90% launafólks sé aðili að stéttarfélögum, komið í ljós.

Frá 43. þingi ASÍ sem var sett í dag.
Frá 43. þingi ASÍ sem var sett í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum einungis eina hagsmuni og eitt pólitískt markmið og það er að tryggja velferð, menntun og öryggi alls vinnandi fólks og þeirra félaga okkar sem misst hafa vinnu, örkumlast eða hverfa af vinnumarkaði sökum aldurs.“

Meðal dæma um árangur í samfélagsúrbótum á árunum eftir hrun nefndi Gyldi lengingu bótatímabils atvinnuleysis, úrbætur á lagalegri stöðu skuldugra heimila, samkomulag um endurreisn félagslega húsnæðiskerfisins, jöfnun ávinnslu lífeyrisréttinda, tvöföldun framlaga atvinnurekenda í starfsmenntasjóði og samkomulag um verulegar breytingar á réttarstöðu erlendra starfsmanna.

Gylfi sagði mikilvægt að hafa í huga að stærstu sigrarnir hafi ekki einungis unnist með verkföllum, heldur með vel undirbúnum og átakalausum kjarasamningum.

Hann sagði allt breytingum háð og að margt benti til þess að áherslur stærstu aðildarsamtaka yrðu með öðrum hætti en verið hefur. „Það er ekki mitt að dæma um hvort það muni verða félagsmönnum Alþýðusambandsins og fjölskyldum þeirra til heilla í framtíðinni, nú þegar ég hef ákveðið að stíga til hliðar sem forseti ASÍ, en svo notuð séu fleyg orð Sókratesar úr málsvörn sinni í síðustu samræðu hans við félaga sína: Nú skiljast leiðir en hvor fer betri för er öllum hulið nema guðinum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert