Færri vinna að því að slökkva eldinn

Enn rauk jafnt og þétt úr horni hússins þegar aðstæður …
Enn rauk jafnt og þétt úr horni hússins þegar aðstæður voru myndaðar síðdegis. mbl.is/​Hari

Fimm slökkviliðsmenn eru áfram að störfum við iðnaðarhúsnæðið í Hafnarfirði. Þegar mest lét í dag voru þeir fimmtán. Svæðið verður vaktað alveg þar til yfir lýkur og eldurinn endanlega slökktur.

Lögreglan tekur þá við og rannsakar vettvang, í von um að varpa ljósi á hugsanleg eldsupptök. Þegar slökkvilið nálgast vettvang sem þennan vinna þeir með það í huga, að gæta rannsóknarhagsmuna. „Þetta er í algerri kyrrstöðu,“ segir Rúnar Helgason, varðstjóri hjá slökkviliðinu. Hann kveðst hættur að geta sér til um hvenær aðgerðum ljúki í þessu máli en segir að slökkviliðið hafi fulla stjórn á ástandinu. Nú þurfi bara að klára þetta með öryggi.

Eldurinn kviknaði á ellefta tímanum í gær og breiddist ákaflega hratt út. Aðstæður voru eldfimar. Um var að ræða harðviðarverkstæði og ofan á það blés rok allhressilega fram eftir nóttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert