Kennaranemar fái styrki hjá LÍN

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menntamálaráðherra vinnur að frumvarpi til þess að veita kennaranemum sértæka styrki úr LÍN. Ráðherrann segir kennaraskort blasa við, ef ekkert verði að gert. Fjöldi brautskráðra kennara sé einfaldlega ekki nægur til þess að mæta þörf. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ætlar að breyta námsfyrirkomulaginu þannig að starfsnám kennara á fimmta ári verði launað og búa þannig um hnútana að Lánasjóður íslenskra námsmanna greiði sértæka styrki til kennaranema. „Hugmyndin er að það verði fjárhagslegur hvati úr Lánasjóðnum í afmarkaðan tíma til þess að auka aðsóknina í námið.“

Á fundi ríkisstjórnarinnar fyrir tæpu ári kynnti Lilja áform sín um átak til að sporna við fækkun menntaðra kennara hér. „Eins og staðan er núna þá erum við að horfa á tvíþættan vanda. Annars vegar að menntaðir kennarar eru ekki að bætast í hóp kennara heldur að finna sér annað starf. Hins vegar að þeir sem hefja kennslu að loknu námi hverfa oft og tíðum til annarra starfa. Þetta brotthvarf er talsvert,“ sagði Lilja í samtali við Morgunblaðið í byrjun febrúar í fyrra. 

„Kennaraforystan og háskólasamfélagið hafa áður fjallað um þennan bráðavanda, eins og ég vil kalla hann. Samráðshópur skilaði tillögum til ráðuneytisins um hvernig fjölga megi kennurum. Þar á meðal voru tillögur um hvernig búa megi til efnahagslega hvata í gegnum LÍN og um námsstyrki – það er einnig áskorun fyrir okkur að fá fleiri í kennaranám,“ sagði Lilja sem vildi á þeim tíma ekki fara nánar út í hvernig slíkar hugmyndir yrðu framkvæmdar. Af orðum hennar að dæma virðist þó að umræddir hvatar myndu einnig beinast að útskrifuðum kennurum.

„Vinna við útfærslur og hugmyndir er ekki komin nógu langt til að ég geti útlistað þær nákvæmlega. Þær þurfa að vera margþættar, þær þurfa að snúa að náminu, þær þurfa að snúa að því að bæta aðbúnað þeirra sem eru í starfinu og að þeim sem horfið hafa úr stéttinni.“

Í erindi sem Lilja flutti á málþingi Öryrkjabandalags Íslands 1. mars í fyrra kom hún einnig inn á þetta og sagði að stjórn­völd þurfi að taka á lít­illi nýliðun og það sé eitt­hvað sem verið sé að gera. 

Hún tók í svipaðan streng á flokksþingi Framsóknarflokksins síðar í marsmánuði í fyrra og að þjóð sem ekki sinnti ekki kennurum væri ekki í fremstu röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert