„Styrkja þarf stöðu kennara“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ávarpaði málþing Öryrkjabandalagsins.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ávarpaði málþing Öryrkjabandalagsins. mbl.is/Golli

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir að styrkja þurfi stöðu kennara í íslensku samfélagi. Álagið sé mikið og virðingin lítil. Menntamálaráðherra segir að íslenskt menntakerfi standi frammi fyrir ýmsum áskorunum, svo sem niðurstöðu PISA-könnunarinnar og nýliðun kennara. 

Lilja Dögg ávarpaði málþing Öryrkjabandalags Íslands um kosti og galla sérskóla í hádeginu. Markmiðið með málþinginu er að  varpa ljósi á þá þjónustu sem nemendur með sérþarfir eru í reynd að fá í skólakerfinu og skapa umræðugrundvöll um skólamál í heild sinni, segir á vef Öbí.

„Skóli án aðgreiningar er opinber skólastefna hérlendis. Staðreyndin er samt sem áður sú að samhliða eru einnig reknir sérskólar. Öryrkjabandalag Íslands hefur Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi í sínum störfum. Þar er skýrt kveðið á um menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar,“ segir á vef Öbí.

Lilja Dögg segir að það sé ánægjulegt hversu mikið sé talað um menntamál nú miðað við áður og að mikilvægt sé að horfa á styrkleika barna en ekki veikleika.

Hún kemur sjálf úr Fellaskóla og lauk þar námi árið 1989 og segist hafa farið í margar menntastofnanir síðan þá en Fellaskóli hafi kennt henni mest. Þar hafi verið mikill fjölbreytileiki og hún hafi lært meira um lífið þar en í næsta skóla, Menntaskólanum í Reykjavík. 

Þegar horft sé á menntakerfið á Íslandi sé ljóst að margt hafi tekist vel en annað ekki. Að sögn Lilju Daggar tala margir kennarar um það við hana að stuðningur við stefnuna skóli án aðgreiningar sé ekki nægur og skoða þurfi hvernig hægt sé að styðja kennara frekar. Til þess þurfi að setja aukið fjármagn inn í menntakerfið og styðja við það þannig að það virki eins og það eigi að virka. 

Að sögn Lilju er mikilvægt að bæði sé boðið upp á skóla án aðgreiningar og einnig sérskóla fyrir þá sem telja þörfum sínum betur borgið þar. Enda séu þarfir nemenda mismunandi. 

Hún nefndi starfsbrautir í framhaldsskólum í erindi sínu á málþinginu og  mikilvægi þeirra. Lilja segir einstaklega vel haldið utan um fatlaða nemendur í Fjölbrautarskólanum við Ármúla og mikilvægt sé að halda vel utan um fólk að loknu námi. Að þeir sem ljúki námi af starfsbrautum hafi eitthvað sem taki við líkt og aðrir nemendur. 

Hún fjallaði einnig um niðurstöðu PISA og segir ljóst að lesskilningur fer minnkandi og Ísland falli þar hratt í samanburði við aðrar þjóðir, svo sem hin Norðurlöndin. Hún telji að getan sé meiri en spurning sé hvernig við nálgumst þetta próf. Við getum samt ekki horft framhjá versnandi stöðu Íslands þar, segir Lilja Dögg. 

Að hennar sögn er nauðsynlegt að horfa meira á lestur, stærðfræði og náttúrulæsi í skólum landsins en það verði ekki gert nema heimilin komi að málum.

Annað sem Lilja Dögg nefndi er nýliðun í kennarastétt. Stjórnvöld þurfi að taka á lítilli nýliðun og það sé eitthvað sem verið sé að gera. Eins verði að draga úr brotthvarfi hér á Íslandi en það er of mikið, segir menntamálaráðherra og meira en annars staðar. Þar þurfi að fara í snemmtæka íhlutun, það er áður en í framhaldsskólann er komið.

Menntamálaráðherra gerði íslenska tungu að umfjöllunarefni og að hugsa þurfi um framtíð íslenskunnar í stafrænu umhverfi. Þar væri metnaðarfullt verkefni að fara af stað; Máltækni fyrir íslensku, sem muni væntanlega muni auka tækifæri þeirra sem eiga í erfiðleikum með lestur.

En lykillinn sé að styðja betur við starf kennara og það þurfi að endurskilgreina hlutverk kennara sem eru að sinna of mörgu þannig að þeir ná ekki að sinna starfi sínu nægjanlega vel. Þetta þurfi að skoða með gagnrýnum hætti, segir Lilja Dögg og bendir á að kannanir sýni að börnum í neðra hæfisþrepi fjölgar á sama tíma og börnum efra hæfisþrepi fækkar. Þetta þýði að hvorugum hópnum sé nægjanlega vel sinnt og að sögn menntamálaráðherra hefur hún áhuga á að skoða þetta betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert